Lítið fer fyrir vinnslu á uppsjávarafla til manneldis þessa dagana enda finnst ekki loðna í veiðanlegu magni við landið. Áfram berst þó kolmunni til fiskmjölsverksmiðja en svo virðist sem norsk uppsjávarskip kjósi nú að selja aflann hæstbjóðendum í Noregi í stað þess að sigla alla leið úr Barentshafi til Austfjarðahafna.
Eskja hefur tekið við þremur förmum úr norskum loðnuskipum, alls um rúmlega 2.000 tonn og Síldarvinnslan í Neskaupstað og Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði hafa einnig verið í viðskiptum við Norðmenn.
Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju, segir það að sjálfsögðu mikil vonbrigði að loðna finnist ekki í veiðanlegu magni við landið en hann telur að betur hefði mátt bregðast við fregnum af loðnu úti fyrir Norðvesturlandi nýlega af hálfu Hafrannsóknastofnunar.
Vantar loðnu en nóg til af hrognum
„Það er fín veiði hjá Norðmönnum í Barentshafi en þeir hafa ekki verið að bjóða upp núna fyrir utan heimamarkað. Það fer allt á uppboð en þeir ráða hvort þeir bjóði upp einungis í Noregi eða utanlands líka. Svo snýst þetta líka um verð og vitað er að Norðmenn hafa verið að framleiða mikið undanfarið og þess vegna þarf að gæta varkárni í þessum efnum,“ segir Hlynur.
Búnir með helming kvótans
Loðnan úr Barentshafi er smærri en sú sem veiðist hér við land og skilar verðminni afurðum. Íslendingar hafa því haft forskot á Norðmenn á loðnumarkaði því Japanir vilja stærri loðnu. Hratt gengur á kvóta Norðmanna sem er alls tæp 85 þúsund tonn. Nú þegar hafa norsk skip veitt um 54% kvótans. Markaður fyrir frysta loðnu er góður um þessar mundir enda lítið sem ekkert af birgðum. Því er ólíku saman að jafna við loðnuhrogn sem mikið er til af í geymslum frá síðustu loðnuvertíð þegar hérlendis voru framleidd yfir 20.000 tonn af loðnuhrognum sem er næstum þreföld ársneysla.
Hlynur er vondaufur um að loðna finnist úr því sem komið er. Þá eru næst fram undan makrílveiðar í júlímánuði og norsk-íslensk síld í september. Góð makrílvertíð var á síðasta ári og veiddist þá um helmingur kvótans í íslenskri lögsögu.