,,Ástandið er mjög dapurt. Við erum búnir að keyra hérna um í rúman sólarhring en höfum ekkert séð af loðnu. Það er ein torfa á miðjum Faxaflóanum með 18% hrognafyllingu, en við erum að leita að loðnu með hærra hrognahlutfalli,” sagði Jón Axelsson skipstjóri á Júpíter ÞH þegar Fiskifréttir náðu tali af honum núna eftir hádegi í dag.
,,Við erum búnir að fara norður að Öndverðarnesi og höfum leitað bæði djúpt og grunnt en ekkert séð,” sagði Jón en auk Júpíters hefur Guðmundur VE verið að leita á sömu slóðum. Fleiri eru loðnuskipin ekki sem stendur vestan við landið.
Grænlenska skipið Erika fékk 500 tonn af loðnu utan við Þorlákshöfn í morgun og sigldi hún sigldi með aflann til Norðfjarðar. Síðan hafa nokkur vinnsluskip verið að veiðum sunnan við landið en þar með er flotinn upp talinn.
Faxi RE og Ingunn AK eru nú á Akranesi en þangað komu þau með 600 tonn loðnu hvort skip á síðasta sólarhring. Afli annars skipsins fékkst suðvestur af Garðskaga en hins norðan við Garðskagann. Vilhjálmur Vilhjálmsson hjá HB Granda tjáði Fiskifréttum að hrognaþroskinn hefði ekki verið orðinn nógu góður í svokallaðan A-flokk og því hefðu hrognin farið til vinnslu í svokölluð iðnaðarhrogn. HB Grandi ætlar að hinkra við með frekari veiðar þar til hrognaþroskinn er orðinn meiri.