Danish Seafood Association, heildarsamtök framleiðslu- og útflutningsfyrirtækja í dönskum sjávarútvegi, styðja heilshugar refsiaðgerðir ESB gegn Færeyingum vegna síld- og makrílveiða þeirra. Sem kunnugt er fela aðgerðirnar í sér bann við innflutningi og löndun á síld og makríl í ESB-löndum og lokun hafna fyrir færeyskum fiskiskipum.
Talsmaður dönsku samtakanna, Peter Bamberger, vísar á bug fullyrðingum lögmanns Færeyja um að refsiaðgerðirnar muni leiða til þess að þúsundir starfa í Danmörku glatist. ,,Aðgerðirnar munu hafa áhrif á nokkra aðila í samtökum okkar en þeir eru sammála um að áhrifin verði ekki alvarleg. Hægt er að fá fisk annars staðar frá þótt það verði kannski aðeins dýrara,“ segir Bramberger í frétt á vef samtaka danskra fiskimanna.
Bramberger segir að kvótaaukning Færeyinga sé ósanngjörn gagnvart þeim þjóðum sem virði settar reglur um verndun fiskistofna sem byggðar séu á vísindaráðgjöf. Forkastanlegt sé að danska ríkisstjórnin, sem státi sig af því að vera umhverfisvæn og styðja sjálfbærni í fiskveiðum, skuli hafa greitt atkvæði á móti refsiaðgerðunum gagnvart Færeyjum í þessu máli.