Danskir sjómenn mótmæla áformum stjórnvalda um hert myndavélareftirlit í Kattegat og segja ekkert tilefni til.
Rasmus Prehn, matvælaráðherra Danmerkur, heldur því fram að sjómenn þar stundi stórfellt brottkast á þorski og við því verði að bregðast. Á síðasta ári hafi 65% af öllum þorski sem þar veiddist verið kastað aftur út í sjóinn, og á það þurfi að horfa í því samhengi að þorskstofninn þar sé býsna illa staddur.
Hann íhugar nú að skylda alla sem þar veiða til þess að setja upp myndavélar á bátum sínum. Danska Fiskistofan muni þá geta fylgst með veiðunum.
Samtök danskra útgerðar- og sjómanna, Danmarks Fiskeriforening, segja þessi viðbrögð alltof hörð og úr hófi miðað við tilefnið. Brottkast hafi vissulega aukist milli áranna 2019 og 2020, en árið 2020 hafi það engu að síður verið minna en árið 2018. Veiðin sé hins vegar sáralítil og heildarmagnið því lítið, og auk þess hafi veiðiheimildir ekki verið fullnýttar.
Danska Fiskistofan hóf í byrjun árs 2021 myndavélareftirlit í Kattegat, sem fer þannig fram að myndavélum var komið fyrir á 12 humarveiðibátum í fullri sátt við útgerðarmenn. Hugmyndin var að fylgjast með því hve miklu af þorski, sem barst um borð sem meðafli, væri kastað út aftur.
Ný samantekt sýnir að í 275 veiðiferðum nam brottkastið 44 kílóum af þorski, eða að meðaltali 160 grömm að meðaltali í veiðiferð. Þessar niðurstöður segja samtökin ekki gefa neitt tilefni til hertra aðgerða.