Danskir fjölmiðlar gera sér þessa dagana mat úr því hvað danskar útgerðir hafi þegið mikið fé í styrki úr sameiginlegum sjóðum ESB. Alls hefur dönsk útgerð fengið 379 milljónir DKK (8,8 milljarða ISK) í opinbera styrki á árunum 2004-2010. Styrkþegarnir eru 1.400 að tölu. Þar af hafa 20 útgerðir fengið 57% af heildarstyrknum í sinn hlut, að því er fram kemur á vef TV2/Nord.
Upplýst hefur verið að styrkjakóngurinn sé Gullak Madsen, útgerðarmaður frá Hirtshals. Á árunum 2004-2010 fékk útgerð hans 23 milljónir DKK í styrki (um 490 milljónir ISK).
Einnig er tekið fram að útgerðarfélag Gullak Madsens hafi hagnast um 80 milljónir DKK á síðasta ári og var hann spurður hvort ekki skyti skökku við að hann þyrfti á styrkjum að halda. Hann sagði að styrkurinn hefði að langstærstum hluta fengist út á kaup á nýju og umhverfisvænna skipi. Nýja skipið noti aðeins helming af eldsneyti eldra skips og losi þar af leiðandi miklu minna af koltvísýringi út í andrúmsloftið. Án styrksins hefði hann ekki ráðist í endurnýjun á skipinu.