Veiðar á sandsíli í Norðursjó hefjast brátt og sjómenn búast við góðri vertíð, að því er fram kemur í frétt danska ríkisútvarpsins.
Haft er eftir talsmönnum útgerðarmanna að rannsóknir sem gerðar voru á hafsbotni í desember lofi mjög góðu. Þeir vonast því til að vertíðin verði að minnsta kosti jafngóð og hún var í fyrra. Veiðimenn eru orðnir langeygir eftir góðri vertíð en í áraraðir hefur sandsílaveiðin verið mjög slök. Það eina sem gæti sett strik í reikninginn núna er hinn kaldi vetur sem verið hefur.
Fyrstu fimm vikur veiðitímabilsins fara fram svonefndar könnunarveiðar en endanlegur kvóti á vertíðinni er ákveðinn út frá því hvernig þær ganga.
Sandsílið heldur sig á hafsbotni á veturna og fer ekki upp í sjó, þar sem það veiðist, fyrr en sjórinn hefur hlýnað nægilega. Ef sjórinn verður óvenjukaldur í upphafi vertíðar gætu orðið tafir á því að sandsílið léti sjá sig í einhverjum mæli. Sjómenn óttast því að könnunarveiðarnar gangi hugsanlega ekki nógu vel og kvótinn verði minni en efni standa til.