Oddur Vilhelm Jóhannsson sjómaður á Bakkafirði man þær nokkrar grásleppuvertíðirnar en aldrei hefur hann áður upplifað jafn litla veiði og nú í upphafi vertíðar. „Þetta er aumasta byrjun sem ég hef tekið þátt í yfir 30 ár,“ segir Oddur.

Oddur er með bátinn Ás NS sem gerður er út frá Bakkafirði. Hann segir að þetta sé ekki aðeins staðan fyrir norðan og austan heldur virðist sem lítið veiðist fyrir sunnan líka. Hann kveðst ekki hafa neinar haldbærar skýringar á þessu nema ef það geti tengst því hve sjórinn er kaldur. Hitastig sjávar hafi áhrif á allar veiðar og það geti því vel verið að veiðin batni þegar fari að hlýna með hækkandi sól.

Ás NS er gerður út frá Bakkafirði. FF MYND/HAFÞÓR HREIÐARSSON
Ás NS er gerður út frá Bakkafirði. FF MYND/HAFÞÓR HREIÐARSSON
© Hafþór Hreiðarsson (Hafþór Hreiðarsson)

Þegar rætt var við Odd var hann að ljúka við að draga síðasta net en þau eru alls 122. Afraksturinn af allri þeirri vinnu þann daginn var 7-800 kíló af grásleppu. Þó var þetta með skárri dögum frá því veiðarnar hófust. Hann segir að veiðarnar standi í raun ekki undir sér en það sem bjargi málum er að þeir eru að fá talsvert af þorski líka og hafi byggðakvóta til að dekka það. Það hafi líka verið óvenju hátt verð á heilli grásleppu á mörkuðum sem geri þetta gerlegt.

Markaðir að opnast fyrir hvelju?

„Það hafa verið litlir kaupendur á markaðnum að kaupa fersk grásleppuhrogn sem fara til Danmerkur. Í byrjun vertíðar voru þeir að borga allt að 1.500 krónur fyrir kílóið. Svo fréttist af því að Brim hefði verið að bjóða 150 krónur fyrir kílóið sem er náttúrulega bara hlægilegt og fyrirtækinu er ekki stætt á því núna,“ segir Oddur.

Oddur Vilhelm Jóhannsson.
Oddur Vilhelm Jóhannsson.

Greint var frá því í grænlenska miðlinum Sermitsiaq nýlega að mikill skortur á grásleppuhrognum í Danmörku hefði leitt til gríðarlegra verðhækkana á ferskum grásleppuhrognum þar í landi. Oddur segir að enn fremur virðist sem að það sé að opnast markaður að nýju fyrir hveljuna og verði það að veruleika og ef íslenskir hrognakaupendur lagi sig að þeim verðum sem hafa verið að fást fyrir grásleppuhrogn á markaði gæti staðan lagast.