Skipunum sem stunda síldveiðar í Breiðafirði fjölgar með hverjum degi. Nú eru þau orðin mörg þrátt fyrir að síldin sé ekki enn kominn inn í Breiðafjörðinn í auðveiðanlegum torfum. Skipin hafa þó verið að fá síld úr fremur litlum torfum, segir á vef Skessuhorns.
Hoffell SU er nú á leið austur til Fáskrúðsfjarðar þar sem aflanum verður landað. Páll Rúnarsson stýrimaður á Hoffelli sagði í samtali við Skessuhorn í morgun að veiðarnar hefðu gengið sæmilega.
„Það var lítið að sjá í fyrradag en í gær var eitthvað að gerast. Það hefur verið dálítill dagamunur á þessu. Við fengu fullfermi út af Kolgrafafirði í gær þar sem við köstuðum tvisvar. Fyrra kastið gaf um 350 tonn og það seinna um 100 tonn. Þetta virðist vera falleg síld og hún virðist þjappa sig ef hún fær frið. Við kíktum í Kolgrafarfjörðinn í gærmorgun og þá sáum við ekkert þar. Eftir mat komum við aftur og var fiskurinn þá kominn,“ segir Páll.