Undanfarið ár hafa staðið yfir framkvæmdir við lagningu röra frá frystihúsi Skinneyjar-Þinganess yfir í fiskimjölsverksmiðju félagsins.
Tilgangur verksins er að dæla því hráefni sem flokkast frá við frystingu beint yfir í verksmiðjuna í stað þess að keyra með það í sérútbúinni bifreið. Grafinn var 12 metra djúpur skurður þvert yfir höfnina þar sem röralögnunum var sökkt ofan í. Frágangi á lögnunum og viðeigandi dælubúnaði er nú lokið og dæling á hráefni milli húsa hafin. Framkvæmdin skilar margvíslegum ávinningi fyrir fyrirtækið og samfélagið í heild. Með henni dregur til dæmis stórlega úr umferð um hafnarsvæðið og þar af leiðandi dregur úr slysahættu og meðhöndlun hráefnisins verður betri, segir á vef Skinneyjar-Þinganess.