Codland hlaut á dögunum 4,35 milljónir norskra króna, jafnvirði um 75 milljóna íslenskra króna, í rannsóknarstyrk frá Nordic Innovation. Rannsóknarverkefnið, sem er til 3 ára, hefur það að markmiði að þróa ensím sem ætluð verða sérstaklega til að vinna kollagen peptíð úr kaldsjávarfiskum.

Undanfarin misseri hefur Codland unnið að tilraunaframleiðslu kollagens úr þorskroði í samstarfi við gelatínframleiðendur á Spáni, en kollagen er lífvirkt efni sem sífellt verður vinsælla í heilsu- og snyrtivörugeiranum. Tilraunframleiðslan og rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið sýna að aðlaga þarf framleiðsluferlið betur að hráefninu og leita leiða til að auka sjálfbærni framleiðslunnar. Í samvinnu við Matís, Barentzyme í Noregi, DTU-Biosustain og Háskólann í Árósum hefst Codland nú handa við slíkt rannsóknar- og þróunarferli en við lok þess er gert ráð fyrir að að reisa kollagenverksmiðju á Íslandi sem unnið getur kollagen peptíð úr roði kaldsjávarfiska á sjálfbærari, hagkvæmari og tæknilega fullkomnari hátt en þekkst hefur hingað til.

Sjá nánar á vef Sjávarklasans.