Slysavarnafélagið Landsbjörg og Coca-Cola á Íslandi hafa undirritað samstarfssamning sem miðar að því að efla þjálfun og hæfni sjálfboðaliða um allt land og samtímis styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Samstarfið mun leggja áherslu á að efla sérhæfð námskeið Landsbjargar sem beinast að viðbragðsstjórnun og björgunaraðgerðum við krefjandi aðstæður. Með því stuðla báðir aðilar að aukinni hæfni björgunarsveitarfólks sem jafnframt nýtist þátttakendum í daglegum störfum sínum og þar með vinnumarkaðnum í heild. Áhersla verður á rafræn námskeið sem gera sjálfboðaliðum kleift að sækja sérhæfða fræðslu hvar sem er á landinu. Um 4.000 manns sækja árlega námskeið á vegum Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Námskeiðin eru þar að auki í boði fyrir einstaklinga úr ferðaþjónustu og orkugeiranum.

Markmið samstarfsins er að efla þjálfun og hæfni sjálfboðaliða Slysavarnafélagsins Landsbjargar, auka aðgengi að rafrænni þjálfun um allt land, þar sem allir geta sótt námskeið, óháð staðsetningu, styðja við sérhæfðar björgunaraðgerðir sem gagnast samfélaginu og auka tækifæri fyrir þátttakendur á vinnumarkaði.

Coca-Cola á Íslandi styrkir verkefnið um 3 milljónir króna á ári næstu þrjú árin og er það hluti af stefnu fyrirtækisins hvað varðar samfélagsábyrgð.

,,Við hjá Coca-Cola á Íslandi erum afar stolt af því að styðja við það mikilvæga og óeigingjarna starf sem Slysavarnafélagið Landsbjörg sinnir. Samstarfið við Slysavarnafélagið Landsbjörg er einstakt tækifæri til að stuðla að bættri menntun, heilsu og öryggi í íslensku samfélagi, ásamt því að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Við sjáum þetta ekki aðeins sem fjárfestingu í björgunarstarfi, heldur einnig sem fjárfestingu í fólki, hæfni þess og framtíð,“ segir Anna Regína Björnsdóttir, forstjóri Coca-Cola á Íslandi.

„Samstarfið við Coca-Cola á Íslandi mun styrkja getu okkar til að bjóða upp á háþróaða þjálfun og auka fjölbreytni í rafrænum námskeiðum um allt land. Með þessu samstarfi getum við betur sinnt hlutverki okkar, að tryggja öryggi og bjarga mannslífum, ásamt því að efla sjálfboðaliða okkar sem dýrmæta auðlind fyrir samfélagið,“ segir Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar.