Færeyska uppsjávarskipið Christian í Grótinum var fært til hafnar í Leirvík á Hjaltlandi síðastliðinn sunnudag og kyrrsett þar í þrjá daga vegna kæru um brot á reglum Evrópusambandsins við vinnslu um borð. Skipinu hefur nú verið sleppt gegn tryggingu en málið verður tekið fyrir í desember.

Skipstjóranum er gefið að sök að hafa ekki staðið rétt að vinnslunni um borð hvað efnameðhöndlun varðar og að hafa ekki fryst fiskinn strax eftir flokkun, að því er fram kemur á vefnum Sheltland News. Menn af strandgæsluskipinu Hitra fóru um borð í færeyska skipið við eftirlitsstað áður en það hélt heimleiðis úr skoskri fiskveiðilögsögu með 600 tonn af frystum makríl og 300 tonn af ferskum makríl. Í framhaldi af skoðun strandgæslumannanna var skipinu vísað til hafnar á Hjaltlandi.

Fram kemur á vefnum að Færeyingar hafi leyfi til þess að veiða 47.000 tonn af 150.000 tonna makrílkvóta sínum í lögsögu ESB.

Eisn og fram hefur komið hér á vefnum hafa samtök útvegsmanna á Hjaltlandi krafist þess að makrílsamningnum við Færeyinga verði sagt upp á þeirri forsendu að vera makrílsins í færeyskri lögsögu hafi verið ofmetin við samningsgerðina, enda hafi færeysk skip haldið sig við Hjaltland síðustu vikurnar við makrílveiðar í stað þess að stunda veiðarnar í eigin lögsögu.