Víkingur AK er nú á heimleið úr sinni fyrstu veiðiferð fyrir HB Granda með fullfermi af kolmunna af Færeyjamiðum en skipið kom nýtt til landsins skömmu fyrir jól.
,,Byrjunin lofar góðu og allur búnaður hefur virkað eins og best verður á kosið," segir Albert Sveinsson í samtali á vef HB Granda. Aflinn í fyrstu hölunum var reyndar ekki mjög mikill en síðan fór hann að glæðast og var að jafnaði tekið eitt hol á sólarhring.
Tíðarfar hefur verið frekar leiðinlegt sunnan við Færeyjar síðustu dagana, hvasst en lítil ölduhæð. Albert segir að Víkingur sé allt annað og betra sjóskip en Faxi RE og Ingunn AK, sem Albert stýrði síðast, og það væri því mikill munur á því hve miklu betur færi um áhöfnina nú en áður.
.