Nemendur sjávarútvegsskólans Gró aldrei verið fleiri en nokkuð snúið reyndist að koma þeim til landsins í heimsfaraldri. Þór Heiðar Ásgeirsson segir biðtímann hafa verið nýttan í endurskipulagningu og innri vinnu.
„Við frestuðum hér öllu um heilt ár. Við náðum að útskrifa eftir áramótin. Þeir síðustu fóru héðan í lok febrúar, og covid skellur á í byrjun mars. Við rétt náðum að klára áður en allt lokaðist,“ segir Þór Heiðar Ásgeirsson, forstöðumaður GRÓ-FTP.
„Síðan leið árið og við þurftum að meta stöðuna eiginlega í hverjum mánuði. Við urðum að fresta og fresta, og það frestuðust fjölþjóðleg verkefni sem við erum þátttakendur í, þannig að við ákváðum bara að hætta alveg þangað til núna í ár.“
Sjávarútvegsskólinn Gró er rekinn hér á landi af Hafrannsóknastofnun en fjármagnaður af GRÓ, þekkingarmiðstöð þróunarmála sem starfar undir merkjum UNESCO, menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Auk sjávarútvegsskólans eru þrír aðrir skólar á vegum Gró, en þeir eru Landgræðsluskólinn, Jarðhitaskólinn og Jafnréttisskólinn.
- Þór Heiðar Ásgeirsson forstöðumaður er nýkominn í tveggja ára leyfi. MYND/GB
Nú er starfsemin þó aftur komin á fullt skrið, nemendurnir komnir og hafa aldrei verið fleiri. Alls 28 manns frá 17 löndum.
„Þeir hafa allir skilað sér, en misseint. Við þurftum að fara með tíu manns í sóttkví sem voru allir óbólusettir, og við kláruðum það en nú er allir komnir hingað eldhressir.“
Mary Frances tekin við
Fiskifréttir ræddu við Þór í septemberlok, rétt áður en hann fór í tveggja ára sérverkefni í Suður-Kyrrahafi.
„Ég var ráðinn í tveggja ára stöðu hjá Alþjóðabankanum á Sólomoneyjum sem sérfræðingur í sjávarútvegsmálum,“ segir Þór, en hann hefur starfað við Sjávarútvegskólann frá 2000, þar af sem forstöðumaður síðustu tvö árin.
Á fimmtudaginn var síðasti vinnudagur hans hér á landi, í bili að minnsta kosti, en við stjórn skólans tekur Mary Frances Davidson. Hún hefur verið aðstoðarforstöðumaður skólans, en alls starfa fimm manns við skólann, í 4,4 stöðugildum.
Venjulega hafa nemendur skólans verið á bilinu 20-23, en þeir eru fleiri í þetta sinn vegna þess að til viðbótar við hópinn sem átti að koma á síðasta ári bætast nokkrir sem samið hafði verið um áður að kæmu núna.
„Við erum með samning við samstarfsaðila um að sinna ákveðnum verkefnum. Þess vegna verður hópurinn í ár svona stór. Við finnum mun á því að vera með svona stóran hóp, en við lærum líka á því.“
Hann segir hópinn koma frá löndum sem eru sambærileg þeim sem nemendur skólans hafa áður komið frá.
„Við erum að fá öfluga einstaklinga frá Papúa Nýju-Gíneu í tengslum við áherslu okkar á smáþróunareyríki (SIDS). Síðan erum við líka að fá hóp frá Costa Rica og El Salvador í fyrsta sinn. Það er í gegnum samstarf við fiskistofu Miðameríkuríkja sem heitir OSPESCA. Það eru nokkur ár síðan Ísland lofaði stuðningi við þessi svæðasamtök og við erum að fá hóp númer tvö í gegnum það.“
Nokkrir heitir reitir
Nemendurnir koma allir frá svonefndum þróunarlöndum, en Þór segir að sérstaklega sé horft á nokkur svæði til að taka nemendur frá.
„Það má segja að við séum með nokkra heita reiti í heiminum,“ segir hann.
Þar nefnir hann í fyrsta lagi löndin við Viktoríuvatn í Afríku, Kenía, Úganda og Tansanía. Einnig hafa nemendur komið frá ríkjum í Vestur-Afríku, og Þór segist það tengjast áherslum utanríkisráðuneytisins sem nú er að opna sendiráð í Sierra Leone.
„Við vorum reyndar komin inn í Vestur-Afríku áður en utanríkisráðuneytið ákvað að fara þangað, en það fer mjög vel saman. Við flökkum svolítið upp og niður ströndina, erum búnir að vera mjög lengi í Gambíu og á Grænhöfðaeyjum en nú eru Líbería og Sierra Leone að koma sterkt inn, og við höfum líka verið að fá hóp frá Ghana.“
Loks er þriðji heiti reiturinn, sem Þór nefnir svo, löndin í Karíbahafinu.
„Við vorum einnig í Suður-Kyrrahafi á tímabili og erum að skoða það, en akkúrat á þessari stundu eru það þessi þrjú svæði. Síðan eru einstök lönd í Asíu,“ segir Þór og nefnir Indónesíu, Víetnam og Kína.
Pásuna hafa þau notað meðal annars í endurskipulagningu og innra starf.
„Við réðumst líka í gerð fjögurra þátta er tengjast heimsmarkmiði 14, sem er líf í vatni. Við höfum notað það sem leiðarljós, og útbjuggum fjóra 20 mínútna samtalsþætti við okkar sérfræðinga. Þættirnir eru sýnilegir á vefsíðu okkar og þeir voru einnig sýndir á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.
Þetta var líka liður í að leggja inn efni til UNESCO, sem okkar framlag þar inn. UNESCO nýtir sér þetta efni.“
Hin djúpa pæling
Þór er spurður út í nafn skólans, sem er GRÓ-FTP en FTP stendur fyrir Fisheries Training Programme.
„Þetta var afrakstur af vinnu fyrir tveimur árum. Þá fluttumst við frá Háskóla Sameinuðu þjóðanna yfir til UNESCO, sem er okkar tengslastofnun við Sameinuðu þjóðirnar. En til þess að það gæti gerst þurfti að búa til UNESCO-miðstöð á Íslandi, og bæði Landgræðsluskólinn, Jafnréttisskólinn og Jarðhitaskólinn starfa þá einnig undir merkjum UNESCO.“
Nafnið sjálft, Gró, kemur til af því að verið er að þjálfa fagfólk.
„Þótt þetta heiti skóli eru þetta þjálfunarprógröm. Hugtakið gró í íslensku er dvalarstig fræja í plöntum og sveppum og bakteríum. Þetta er hjúpur sem verndar fræið fyrir þurrki og öfgakenndum umhverfisáhrifum, en svo undir réttum aðstæðum rofnar þessi hjúpur og upp vex lífvera.“
Auk þess minnir nafnið á enska orðið Grow, eða að vaxa.
„Því má líta á fólkið sem kemur í þjálfun hingað til Íslands sem gró sem þarf bara rétt umhverfi og góðan jarðveg til að vaxa og dagna. Þetta var svona hin djúpa pæling á bak við nafnið.“