Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst því yfir að næsti áratugur, 2021 til 2030, verði áratugur hafsins og hafrannsókna. Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur af því tilefni verið að búa sig undir aukin verkefni á Norður-Atlantshafi með það markmið að efla þar rannsóknir og stuðla að sjálfbærni.
„Gera þarf miklu meira til þess að snúa við þeirri hnignun sem orðið hefur á heilbrigði hafsins og skapa betri aðstæður fyrir sjálfbæra þróun í hafi og á ströndum,“ segir í tilkynningu frá ICES.
Í þessari viku tekur framkvæmdastjóri ICES, Anne Christine Brusendorff, þátt í vinnufundi um Norður-Atlantshafið til að ræða hvert framlag ráðsins getur orðið til þess að ná fram markmiðum áratugar hafsins.
Sett hafa verið fram sex meginmarkmið sem lúta að umgengni okkar við hafið, þar á meðal hvað varðar rannsóknir og nýtingu auðlinda.
Vladimir Ryabinin, sem er yfir stýrinefnd Sameinuðu þjóðanna hvað varðar verkefni áratugarins, segir að ICES muni ekki eingöngu vera þátttandi heldur gegna lykilhlutverki í starfinu framundan.
„Fyrir okkur er mikilvægt að hafa öruggar undirstöður til að tala við bæði almenning og stjórnvöld, og þá þurfum við vísindi sem eru áreiðanleg og sannfærandi,“ segir Ryabinin í viðtali á vef ICES.