Nýr og afkastamikill frystitogari Ramma hf. mun marka tímamót. Skipið verður mjög hagkvæmt í rekstri. Bylting verður á millidekki hvað varðar vélvæðingu og vinnuhagræðingu. Meðal annars verður mikil sjálfvirkni í snyrtingu og pökkun. Ein mesta einstaka nýjungin um borð í Sólbergi verður eflaust bitaskurðarvél frá Völku ehf. Þá verður fiskimjölsverksmiðja um borð.
Rammi hf. í Fjallabyggð er með frystitogara í smíðum hjá Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi fyrir um 5,6 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að togarinn verði afhentur í janúar 2017. Ragnar Aðalsteinsson, útgerðarstjóri Ramma, kynnti nýja skipið á þingi FFSÍ nú fyrir helgina. „Þegar við hófum þetta verkefni voru flestir, sem voru í hugleiðingum um að endurnýja skip, uppteknir af ísfisktogurum. Við ákváðum hins vegar að fara á móti straumnum. Við höfum trú á því að með því að þróa frystitogarann sé hægt að ná mun betri árangri en nú er,“ sagði Ragnar í upphafi máls síns.
Sjá nánar umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum.