World Seafood Congress var haldið í Hörpu um miðjan september. Ráðstefnan var haldin af Matís, en þetta er í fyrsta skiptið sem ráðstefnan er haldin á Norðurlöndunum.
Um það er fjallað á heimasíðu HB Granda að Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri fyrirtækisins, hélt erindi um fjárfestingar í veiði og vinnslu og sýndi hann meðal annars brot úr heimildarmyndinni um togarann Ásbjörn sem gerð var fyrr á árinu ásamt nýju myndbandi sem tekið var um borð í Engey í þriðju veiðiferð skipsins í byrjun september.
„Endurnýjun flotans er mjög mikilvæg fyrir félagið, það mun draga úr viðhaldskostnaði og auka gæði afla, stórbætir aðbúnað áhafnar um borð og vinnsluaðstöðu þeirra," sagði Vilhjálmur í erindi sínu og bætti við að Engey sé án efa eitt tæknivæddasta fiskiskip landsins.
Í myndböndunum tveimur sést vel hvernig tæknivæðing auðveldar vinnu um borð, minnkar álag á áhöfnina og dregur úr slysahættu. Aðbúnaðurinn um borð í Engey, með sjálfvirku lestarkerfi og SUB-CHILLING™ kerfi frá Skaganum 3X er allur miklu betri en í gamla Ásbirni, og sýnir vel þá tæknibyltingu sem orðin er í íslenskum sjávarútvegi.