Loðnuvinnslan hefur undirritað viljayfirlýsingu við KAPP ehf. og KAPP-Skagann ehf. um að ganga frá samkomulagi um kaup á búnaði í uppsjávarvinnslu félagsins. Á næstu mánuðum hyggst Loðnuvinnslan byggja við núverandi löndunarhús félagsins og færa þangað innvigtun, flökun og síldarsöltun félagsins.

Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir við bygginguna vera nauðsynlega ráðstöfun til að mæta breytingum á vigtarreglugerð uppsjávarfisks en nýr búnaður rúmast ekki innan núverandi bygginga. Þar sem ljóst var að ný bygging þyrfti að rísa var ákveðið að koma flökunarbúnaði og síldarsöltun fyrir í nýju rými og draga úr flutningum með fisk innan svæðisins. Stefnt er að því að ljúka samningum við KAPP fyrir lok maímánaðar þar sem gengið verður frá nýju kerfi fyrir vigtun, innmötun og kælingu hráefnis og afurða inn í nýja húsið.

Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar í Fáskrúðsfirði.
Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar í Fáskrúðsfirði.

Erfitt að ráðast í fjárfestingar

Garðar segir að erfitt sé að ráðast í fjárfestingar á þess um tímapunkti vegna mikillar óvissu. Í þessu tilfelli hafi hins vegar ekki verið í stöðunni að slá framkvæmdum á frest og óskynsamlegt að nýta ekki tækifærið til færslu á flökunarbúnaði og síldarsöltun.

„Fyrirhuguð veiðigjöld stjórnvalda til viðbótar við almenn an tekjuskatt og síhækkandi kolefnisgjöld stefna í 70% af rekstrarafkomu félagsins fyrir skatta miðað við síðasta rekstrarár. Það gefur augaleið að núverandi stefna stjórnvalda gengur ekki upp og almennt æskilegt að skattlagning taki mið af rekstrarafkomu. Félagið er í 83% eigu Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og á bakvið það standa um 350 félagsmenn á staðnum. Afkoma af rekstri þess fer því nánast alfarið í uppbyggingu þess á staðnum og styrkingu samfélagsins.“

Garðar segist treysta því að stjórnvöld taki upp samtal við fyrirtækin og útfæri betri leið til innheimtu veiðigjalda en þá sem nú er lögð til. Horfa verði til þess að fyrirtæki í sjávarútvegi geti áfram stutt af krafti við þau öflugu tæknifyrirtæki sem hér starfa svo ekki sé minnst á nýsköpun í greininni. Slíkar fjárfestingar auka verulega umsvifin í sveitarfélögum þar sem félögin starfa og efla þjóðarhag.

Gríðarlega mikilvægt fyrir okkar rekstur

Ólafur Karl Sigurðsson, framkvæmdastjóri KAPP-Skagans, fagnar væntanlegu samstarfi við Loðnuvinnsluna. „Umræða um hækkun veiðigjalda skapar ákveðna óvissu í greininni, því er eðlilegt að félögin sem við eigum viðskipti við velti fyrir sér að halda að sér höndum. Það er hvorki gott fyrir samfélagið né greinina, eins og við höfum reyndar sagt áður opinberlega. Það hefur ekki verið tekið tillit til þeirra áhrifa sem hækkun veiðigjalda hefur á afleiddar tekjur þeirra sem þjónusta sjávarútveginn, hvort sem það séu tæknifyrirtæki eins og okkar eða önnur þjónusta og ráðgjöf. Þess vegna er þessi samningur líka gríðarlega mikilvægur fyrir okkur og okkar rekstur,“ segir Ólafur Karl.

Ólafur Karl Sigurðsson,  framkvæmdastjóri KAPP-Skagans.
Ólafur Karl Sigurðsson, framkvæmdastjóri KAPP-Skagans.

Hann segir að rekstur KAPP-Skagans sé kominn ágætlega af stað, en þeir finni fyrir áhrifum af fyrirhugaðri hækkun veiðigjalda. Í kjölfarið hafi sjávarútvegsfyrirtæki þurft að endurhugsa komandi mánuði í rekstri, vegna óvissu. KAPP-Skaginn var kominn með verkefni sem fallið hafi verið frá og önnur sem hafi verið slegið á frest. Sama hafi gerst í Noregi þegar skattar á fiskeldisfyrirtæki voru hækkaðir. Ólafur Karl var þá framkvæmdastjóri Marel Fish og upplifði þá að fallið var frá verkefnum áður en skattahækkanirnar tóku gildi. Þetta hafi haft áhrif út um allan heim. „Ég er smeykur um að einmitt þetta sama gerist hérlendis með hækkun veiðigjalda,“ segir Ólafur Karl.