Á sunnanverðum Vestfjörðum er unnið að uppbyggingu á laxeldi á vegum Fjarðalax sem gæti gefið 10 þúsund tonna ársframleiðslu eftir um fimm ár af náttúrlega vottuðum gæðalaxi og skilað um 6 til 8 milljörðum í útflutningstekjur ef allt fer að óskum. Áætlað er að um 130 til 150 manns vinni beint við eldið fyrir vestan. Slátrun á eldislaxi af fyrstu kynslóð hófst í haust.
Þessar upplýsingar koma fram í ítarlegu viðtali í sjómannadagsblaði Fiskifrétta við Arnór Björnsson, aðaleiganda Fjarðalax. Arnór er jafnframt aðaleigandi North Landing, fyrirtækis á austurströnd Bandaríkjanna sem flytur inn lax og vinnur fyrir stórkaupendur.
Nú þegar hafa verið settir um 2 milljarðar króna í uppbyggingu á laxeldið fyrir vestan. Arnór segir að forsendur fyrir rekstrinum sé að laxinn verði vottaður sem náttúruleg framleiðsla. Til að fá vottun þarf laxeldið að vera svæða- og kynslóðaskipt.