Bresk-norska fyrirtækið Argos Froyanes hefur hafið smíði á sérhönnuðum línubát til veiða á tannfiski í Suðurskautshafi. Ofveiði var um langt skeið á tannfiski á þessum slóðum en núna er óvíða meiri stjórn á veiðum.
Fjárfestingin í nýja línubátnum er um 20 milljónir dollara, eða um tveir milljarðar ÍSK. Fyrirtækið vonast til þess að nýi báturinn fái auknar veiðiheimildir frá stjórnvöldum eynni Suður-Georgíu og Suður-Sandvíkureyjum sem fara með fiskveiðistjórnun á svæðinu. Eyjarnar eru breskt yfirráðasvæði syðst í Atlantshafinu.
Heimildir til veiða á tannfiski á svæðinu gilda einungis til tveggja ára í senn. Fiskveiðistjórnunin felur m.a. í sér að auka sjálfbærni í veiðum í hvert sinn sem sótt er um veiðiheimildir. Kvótar hafa verið stöðugir og heldur aukist á síðustu árum sem gerði útslagið fyrir fjárfestingu Argo Froyanes í nýja línubátnum.
Peter Thomson, talsmaður Argos Froyanes, segir að nýja skipið sé ekki síður rannsóknaskip en fiskiskip og mikið verði unnið að vísindarannsóknum í samstarfi við stjórnvöld um leið og veiðar standi yfir.
„Nýja skipið leysir af hólmi tiltölulega nýlegan línubát en með því nýja verða stórstígar framfarir á sviði öryggis, skilvirkni og aðbúnaði fyrir áhöfn,“ segir Thomson. Skipið verður við veiðar á hafsvæðinu milli Ástralíu og Suðurskautslandsins þar sem veður verða válynd og miklir kuldar eru ríkjandi.
Thomson telur að hönnun nýja skipsins, Argos Georgia, með sínu háa öryggisstigi og framsækinni nálgun í aðbúnaði fyrir áhöfn, verði forskriftin fyrir línubáta á þorsk- og ýsuveiðum innan 10 til 15 ára.
Skipið er með brunni neðst á skrokknun og er tannfiskurinn tekinn í gegnum hann og fer beint til aðgerðarrýmis áður en hann er hraðfrystur og komið fyrir í frystigeymslu. Með þessu eykst öryggi áhafnarinnar sem þarf ekki að vinna við opna lúgu þar sem línan er dregin inn og líkurnar á því að fiskurinn slitni af krókunum þegar hann er dreginn um borð minnka. Þessi tækni er þekkt innan olíuiðnaðarins og rannsóknaskipa sem nýta hana m.a. til þess að koma tækjabúnaði eða smákafbátum frá borði. Norðmenn hafa einnig verið með brunnbáta við línuveiðar í Noregi. Anna EA, línubátur sem Samherji keypti frá Noregi 2013, er með þessu lagi.
Skipið er 54 metra langt og með rými fyrir 28 manna áhöfn, þar á meðal sérhönnuðu vinnusvæði fyrir tvo eftirlitsmenn. Verið er að smíða skipið í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og verður það tekið í notkun í febrúar á næsta ári.
Útgefinn kvóti fyrir tannfisk við Suður-Georgía 2016 og 2017 var 2.200 tonn en heildarkvótinn á hafsvæðinu var 23.000 tonn á árinu 2016. Kílóverð á tannfiski er um það bil 34 dollarar. 350 tonna kvóti gæti því gefið af sér sölu upp á 7-7,5 milljónir dollara, 690-740 milljónir króna.