Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að úthluta 3.885 tonnum til byggðakvóta á næsta fiskveiðiári sem þýðir að byggðakvótinn verður ekki skertur að hluta líkt og gert var á yfirstandandi fiskveiðiári vegna strandveiða.
Þá hefur ráðherrann ákveðið að úthlutun til rækju- og skelbáta sem orðið hafa fyrir verulegri skerðingu aflaheimilda skuli vera hin sama á næsta fiskveiðiár og hún er á yfirstandandi ári. Í hlut innfjarðarækjubáta koma 982 þorskígildistonn og í hlut skelbáta 983 þorskígildistonn.
Loks hefur ráðherrann ákveðið að bæta skuli 500 tonnum af ýsu við línuívilnun á næsta fiskveiðiári samanborið við úthlutunina í ár. ,,Fram hefur komið að línuívilnun er fyrirkomulag sem þykir hafa í aðalatriðum tekist vel og er atvinnuskapandi. Rétt þykir því að auka vægi hennar,” segir í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu.
Alls nema þessar sérstöku heimildir 10.473 þorskígildistonnum.
Gefnar hafa verið út reglugerðir um þessa þætti alla sem sjá má á vef ráðuneytisins, HÉR