Sjávarútvegsráðherra undirritaði í dag reglugerðir um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2010/2011. Reglugerðirnar eru sambærilegar reglugerðum síðustu fiskveiðiára í öllum aðalatriðum en heildarúthlutunin nemur 4.564 tonnum sem er um 17% aukning frá fyrra fiskveiðiári þegar heildin var 3.885 tonn.
Því til viðbótar koma 972 tonn sem ekki nýttust í fyrri úthlutun en eru samkvæmt nýjum reglum yfirfæranleg milli ára. Alls fara því 5.536 tonn til úthlutunar til smærri byggðarlaga í landinu. Með þessu nýtir ráðherra til fulls allar þær aflaheimildir sem svigrúm er til innan laga um stjórn fiskveiða.
Á næstu dögum berst sveitarstjórnum bréflega tilkynning um það hve mikið kemur í hlut hvers byggðarlags og þá um leið kallað eftir sérreglum einstakra sveitarfélaga.
Alls fá nú 44 byggðarlög í landinu úthlutun byggðakvóta sem er nokkru fleira en undanfarin ár. Staðir sem ekki fengu úthlutun í fyrra eru Vogar, Arnarstapi, Stokkseyri, Djúpivogur, Hellissandur og Rif. Byggðakvóti getur samkvæmt reglugerð nr. 857/2010 mestur orðið 300 tonn og fær eitt byggðarlag, Flateyri, svo háa úthlutun en þau sem koma næst á eftir eru umtalsvert lægri. Lægst getur úthlutun verið 15 tonn.
Sjá nánar á vef sjávarútvegsráðuneytisins, HÉR