Six Rivers, fyrirtæki auðmannsins Jim Ratcliffe, vill taka veiðiréttinn í Svalbarðsá í Þistilfirði á leigu til tíu ára og greiða fyrir það alls 2.070.000 evrur, jafnvirði 280 milljóna króna.
Í tilboði Six Rivers felst 170 þúsund evra leiga á ári auk 20 þúsund evra til landgræðslu og 170 þúsund evra til endurnýjunar á veiðihúsinu kjósi Veiðifélag Svalbarðsár ekki að taka þeim kosti að Six Rivers byggi nýtt veiðihús sem verði í eigu fyrirtækisins að leigutímanum loknum. Þó er tekið fram í tilboðinu að í samningsferlinu gefist kostur á að ræða og semja um árlega eignarfærslu á nýju húsi til veiðifélagsins án endurgjalds.
Tvö sumur eftir af núverandi samningi
Samkvæmt arðskrá eru eignarhlutar í veiðiréttindum Svalbarðsár níu talsins. Þar af á Langanesbyggð jarðirnar Flautafell og Kúðá 1 og Kúðá 2 með samtals 48,9 prósent af réttinum. Bretinn Ratcliffe á jörðina Svalbarðssel sem 17,5 prósent af veiðiréttinum tilheyrir.
„Það var ekkert ákveðið með það enda er það í raun ekki á okkar forræði að ákveða, það er veiðifélagið sem tekur ákvörðun,“ segir Júlíus Þröstur Sigurbjartsson, formaður stjórnar Jarðasjóðs Langanesbyggðar, um viðbrögð sjóðsins við tilboði Six Rivers.
Fyrirtækið Hreggnasi er núverandi leigutaki Svalbarðsár. Júlíus segir þann samning gilda út sumarið 2026. „Six Rivers sendir bara inn tilboð því þeir vita að það styttist í að áin losni,“ segir hann.
Núverandi hús fínt
Sem fyrr segir er það fyrsti kostur Six Rivers að byggja nýtt hús. Varðandi það er vísað til veiðihúss Six Rivers við Miðfjarðará sem er 450 fermetrar fyrir tvær stangir. Júlíus segir núverandi veiðihús við Svalbarðsá reyndar vera mjög fínt.
„En þeir segjast alltaf vera að stefna á mjög ríka einstaklinga og þá þykir þetta ekki boðlegt,“ segir Júlíus sem ítrekar að málið sé á frumstigi.
„Það eru bara misjafnar skoðanir á því eins og um flest allt annað,“ svarar Júlíus spurður hvernig mönnum lítist á umsvif hins breska athafnamanns sem þegar fer með forræði nokkurra bestu laxveiðiáa á Norðausturlandi.