„Fyrsta árið hefur verið helgað fyrstu tveimur vinnupökkunum enda eru þeir afar mikilvægir ogleggja grunninn að þeirri vinnu sem fram undan er,“ segir Bryndís Nielsen, ráðgjafi hjá Athygli, um stöðu Whisper orkuskiptaverkefnisins.

Sagt var frá því í Fiskifréttum í janúar 2023 að Whisper hefði fengið 1,4 milljarða króna styrk til fjögurra ára frá nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins, Horizon Europe.

Um væri að ræða fjölþjóðlegt samstarf sem Verkís leiddi og að íslensk fyrirtæki væru í urðarhlutverkum. Gengju áætlanir eftir mætti draga úr eldsneytisnotkun tankskipa um tæp 30 prósent og gámaskipa um 15 prósent. Auk Verkís eru aðrir íslenskir þátttakendur fyrirtækin SideWind, Samskip, BBA// FJELDCO og Athygli.

Hámarka orku úr túrbínu

Bryndís Nielsen, ráðgjafi hjá Athygli.
Bryndís Nielsen, ráðgjafi hjá Athygli.

„Whisper er fjögurra ára orkuskiptaverkefni og skiptist í nokkra verkþætti eða vinnupakka,“ segir Bryndís hjá Athygli, sem hefur með höndum að miðla upplýsingum um verkefnið.

„Vinnan hefur meðal annars beinst að hönnun lausnarinnar/kerfisins og flókinni líkanagreiningu til að hámarka nýtni. Unnið hefur verið að því að greina aðstæður, prófa og þróa tæki og búnað, má þar nefna þróun á túrbínu SideWind sem dæmi, og hvernig hámarka megi orkuframleiðslu hennar,“ segir Bryndís, sem kveður verkefnið ekki einfalt í framkvæmd.

Tvö ólík kerfi í vinnslu

„Það er margt sem þarf að huga að þegar verið er að samræma og prófa flóknar, nýjar tæknilausnir og nýta þær til að breyta skipunum svo þau verði grænni,“ segir Bryndís. Ein af áskorununum felist í að laga lausnirnar að því krefjandi umhverfi sem sé að finna á hafi úti.

Tankskip á vegum skipafyrirtækisins Ant. TOPIC í höfn í Immingham í mars 2023. Þá gafst fulltrúum verkefnisins færi á að kanna raunaðstæður um borð. Mynd/Aðsend
Tankskip á vegum skipafyrirtækisins Ant. TOPIC í höfn í Immingham í mars 2023. Þá gafst fulltrúum verkefnisins færi á að kanna raunaðstæður um borð. Mynd/Aðsend

„Einnig þarf allt að passa fyrir þau skip sem munu taka þátt í tilraunaprófunum, bæði gáma- og tankskip. Unnið hefur verið að framleiðslu og prófun á búnaði fyrir tvö ólík kerfi,“ segir Bryndís og nefnir WAPS sem er vindknúið kerfi og WSHPS sem er vind- og sólarorkukerfi. Þetta hafi verið gert bæði við raunaðstæður og á rannsóknarstofum, ásamt því að þróa raforkukerfi og hugbúnað.

„Uppsetning á búnaði í skipum er áætluð að hefjist um mitt tímabil verkefnisins, 2025,“ segir Bryndís.