Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til löndunar í Neskaupstað aðfaranótt mánudags með góðan afla eða um 120 tonn. Um 70 tonn af aflanum var þorskur en hluti hans var ufsi, ýsa, karfi og fleiri tegundir samkvæmt því sem segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar .

Skipið var á veiðum í um það bil tvo og hálfan sólarhring þannig að það aflaðist jafnt og vel í túrnum. Túrinn hófst með ýsuveiðum innan við Undirbyrðarhrygg á Papagrunni og síðan var veiddur ufsi á suðvesturhorni Papagrunns.

Þá var haldið í þorskinn og var hann tekinn frá Kransinum yfir á Brjálaða horn, á Örvæntingarhorni og í Kverkinni austan við Örvæntingarhorn. Á þessu svæði var bullandi þorskur og er um góðan fisk að ræða.

Steinþór Hálfdanarson skipstjóri á Bjarti segir að menn séu ánægðir með aflabrögðin en ráðgert er að Bjartur haldi í næsta túr á föstudagsmorgun og er löndun áætluð þriðjudaginn 18. júní. Áformað er að aflasamsetning verði svipuð í næsta túr og var í þeim síðasta að karfa undanskildum en Bjarti er ekki ætlað að veiða hann að sinni. „Hér um borð eru allir sallaánægðir“, segir Steinþór,“góður afli, gott veður, gott að borða – er hægt að biðja um eitthvað meira ?“