Stefnt er að því að halda áfram fiskvinnslu í húsnæði Vísis á Djúpavogi þrátt fyrir að Vísir flytji starfsemi sína þaðan. Vísir hefur selt Ósnesi hlutafé sitt í Búlandstindi og hyggst afhenda félaginu húsnæði sitt endurgjaldslaust ef þar verður stöðug vinnsla næstu fimm árin.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu  frá Vísi. Ósnes keypti hlutafé Vísis í Búlandstindi á hálfa milljón króna og hefur ásamt Fiskeldi Austfjarða skuldbundið sig til að auka hlutafé Búlandstinds um 140 milljónir króna. Búlandstindur hefur svo fiskvinnslu og vinnslu og pökkun á eldisfiski um áramót. Stefnt er að því að 30 störf verði hjá fyrirtækinu við almenna fiskvinnslu og slátrun og pökkun eldisfisks. Fram kemur í fréttatilkynningunni frá Vísi að Ósnes kaupi tæki og búnað Vísis á staðnum og leggi inn í Búlandstind sem hlutafé auk þess sem Fiskeldi Austfjarða leggi tækjabúnað til vinnslu og pökkunar á eldisfiski inn í félagið sem hlutafé.

Fasteignir Vísis á Djúpavogi eru metnar á 50 milljónir króna. Vísir afhendir Búlandstindi eignirnar endurgjaldslaust verði stöðug vinnsla í húsunum næstu fimm árin. Með þessu segjast forsvarsmenn Vísis „gera sitt til að tryggja áframhaldandi fiskvinnslu á Djúpavogi eftir að fyrirtækið flytur starfsemi sína þaðan til Grindavíkur um næstu áramót“.

Frá þessu er skýrt á vef RÚV