Sjávarútvegsráðstefnan 2023 verður sett í Hörpu næstkomandi fimmtudag og stendur í tvo daga. Þetta er í 12. sinn sem ráðstefnan fer fram og nú undir yfirskriftinni Samfélagsleg ábyrgð sjávarútvegs. Formaður stjórnar Sjávarútvegsráðstefnunnar er Kristinn Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Icelandic Sustainable Fisheries. Hann segir að búist sé við að um 650 manns sem tengjast sjávarútvegi beint og óbeint sæki ráðstefnuna.
Auk fjölda málstofa um hin margvíslegu málefni segir Kristinn Sjávarútvegsráðstefnuna líka vera vettvang þeirra sem tengjast sjávarútvegi með einhverjum hætti til að hittast, skiptast á skoðunum og deila hugmyndum.
„Þar sem sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein á Íslandi hefur mikill fjöldi manns afkomu sína tengda því sem gerist innan greinarinnar. Sá fjöldi og fjölbreytni starfanna hefur einungis aukist með hverju árinu sem líður,“ segir Kristinn.

Endurspeglun almennrar virðiskeðju
Hann segir málstofurnar á ráðstefnunni endurspegla almenna virðiskeðju sjávarútvegsins. Flutt verða erindi sem snerta meðal annars á veiðum og fiskveiðistjórnunarkerfinu, ástandi lífríkisins og hafsins, vinnslu og framleiðslu, umbúðum, tækjum og tækni, sölu- og markaðssetningu, stjórnun og rekstri, stefnumótun og mannauðsmálum.
Ólafur Karl Sigurðsson, framkvæmdastjóri Marel, setur ráðstefnuna kl. 10 á fimmtudag. Marel fagnar 40 ára afmæli á árinu og býður af því tilefni til móttöku í lok fyrri dags Sjávarútvegsráðstefnunnar. Fyrsta málstofan verður tileinkuð Samfélagslegri ábyrgð sjávarútvegs. Fundarstjóri er Ingunn Agnes Kro og erindi flytja Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um sjálfbærni, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja i sjávarútvegi og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri. Að loknum umræðum í panel með þátttöku Ingveldar Ástu Björnsdóttur, sem situr í stjórn Odda, Margrétar Kristínar Pétursdóttur, forstöðumanni gæðamála hjá Vísi, og Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims, verða Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar veitt í samvinnu við TM.
Svo rekur hverja málstofuna af annarri á fimmtudag og föstudag. Alls verða þær sex á fimmtudegi, þ.e.a.s. Þróun í frystitækni, Breyttur heimur og áskoranir við markaðssetningu sjávarafurða, Verndun hafsvæða, Hvernig löðum við til okkar fólk, Upplýsingagjöf um sjálfbærni og Hámörkun verðmæta við nýtingu sjávarlífvera.
Á föstudegi verða haldnar níu málstofur; Siglum í átt að hringrásarhagkerfi, Hverjir borða íslenskan fisk?, Ekki vera fjarverandi, Umbúðalausnir staða og þróun, Matvæla- og fæðuöryggi sjávarútvegs, Fjölmenning á vinnustað, Verðmætasköpun með notkun myndgreiningartækni, Markaðssetning á ímynd sjávarafurða og Orkuskipti og innviðauppbygging. Nánar má lesa um dagskrá ráðstefnunnar hér.