„Þetta gengur bara ágætlega, það er ekkert hægt að kvarta. Við erum að einbeita okkur að ýsu,“ segir Gylfi Scheving Ásbjörnsson, skipstjóri á krókaaflamarksbátnum Tryggva Eðvarðs SH 2 frá Ólafsvík, um veiðina undanfarið.
Þegar rætt er við Gylfa síðastliðinn mánudag er hann ásamt áhöfn sinni í Reykjarfirði á Ströndum.
„Að mestu leyti erum við búnir að vera í Skagafirði. Þegar við erum fyrir norðan
þá löndum við helst á Sauðárkróki,“ segir Gylfi. Nú þegar þeir séu að veiðum á Húnaflóanum sé landað á Skagaströnd og aflanum ekið þaðan á Sauðárkrók. Þótt veiðin gangi ágætlega og Gylfi segi ekki hægt að kvarta hefur slæmt tíðarfar og hafís spillt fyrir.
Verri tíð en í fyrra
„Það er mikið af ís núna,“ segir Gylfi um aðstæðurnar á Húnaflóa. Ísinn sé töluvert að þvælast fyrir. „Það þýðir að minnsta kosti ekki að hanga í símanum á stímunum núna. Ég er búinn að telja sjö borgarísjaka. Síðan eru minni jakar sem hafa brotnað úr þeim.“
Þessa minni jaka segir Gylfi viðsjárverða. „Þeir koma jafnvel ekki inn á radar og eru kannski fjörutíu til fimmtíu tonn á þyngd,“ segir skipstjórinn sem einmitt er með einn jaka í sjónmáli þegar spjallað er við hann.
„Fiskurinn er búinn að vera mjög fínn en það er búið að vera erfitt tíðarfar, það er búið að vera mikið meira af brælum og norðanáttum heldur en í fyrra,“ heldur Gylfi áfram. Þennan mánudag er til dæmis vindur upp á um fimmtán metra á sekúndu og talsverður veltingur. „En þetta hefst allt í rólegheitum,“ ítrekar skipstjórinn.
Minnstu bátarnir sæki lengst
Gylfi segir krókaflamarksbáta sæta alls kyns reglum og lögum sem honum finnist í ljósi aðstæðna aðeins mætti slaka á.
„Við erum bundnir því að veiða á handfæri eða línu en ef mættum fara á önnur veiðarfæri þá væri þetta kannski skaplegra. Ef við fengjum veiðarfærafrelsi gætum við verið nær landi og ekki verið svona langt úti. Minnstu bátarnir sækja yfirleitt lengst á vertíðinni. Mér finnst óréttlátt að við séum bundnir þeim takmörkunum að veiða á króka,“ segir Gylfi sem kveðst mundu vilja fá að beita þeim veiðarfærum sem best henti hverju sinni.
Á Húnaflóa út janúar
„En það er ekki í boði og það getur verið stór ástæða þess að einyrkjar eru að hrökklast úr krókaaflamarkskerfinu,“ segir Gylfi. Ekki aðeins sé kerfið takmarkandi heldur hafi allur kostnaður aukist mikið.
„Kílóið af smokkfiski til beitu kostar til dæmis núna 600 til 700 krónur en ég man eftir að hafa verið að kaupa hann á um 200 krónur. Beitan og krókar hafa hækkað um fleiri hundruð prósent. Kostnaður við línuútgerð er kominn úr böndunum,“ segir Gylfi. Nær væri að hætta að flytja dýra beitu jafnvel hálfa leið yfir hnöttinn og sleppa línuveiðinni.
Að sögn Gylfa reiknar hann með að vera á Húnaflóanum út janúar. „Við höldum áfram að reyna að veiða ýsu.“