Landað hefur verið nálægt 200 þúsund af tonnum af loðnu á þessari vertíð í rúmlega 120 löndunum. Síldarvinnslan hafði tekið á móti langmestu af aflanum eða rúmlega 60.000 tonnum en hinum megin á landinu, á Akranesi, hafði verið landað 11.000 tonnum á þriðjudag.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir athafnalífið í kringum loðnuvertíðina augljóslega lyfta geði bæjarbúa.

„Það hafa verið gríðarleg uppgrip hjá okkur síðustu vikurnar. Það er góð tilfinning að fá hvert skipið á fætur öðru hingað inn til löndunar. Og að finna lyktina leggjast yfir bæinn af þessu ferska hráefni sem er verið að vinna með. Það er ilmur í lofti sem sumum fellur reyndar ekki í geð. En ég finn það á bæjarbúum að þeir njóta þess að fá svona uppgrip í bæinn,“ segir Sævar Freyr.

Hann var mættur á bryggjuna þegar Venus NS kom með fyrsta loðnufarm ársins til Akraness og færði skipverjum rjómatertu frá Kallabakarí, sem hann segir afar ánægjulegt embættisverk.

Síðan hafa bæst við fjórar landanir á loðnu, sú síðasta þegar Guðrún Þorkelsdóttir SU landaði rúmum 1.500 tonnum á mánudag.

Hrognavinnsla innan fárra vikna

Sævar bindur vonir við að talsverðu af loðnu verði landað á staðnum og sömuleiðis að hrognavinnsla hefjist þar innan fárra vikna með enn meiri verðmætasköpun. Hann segir að undanfarið hafi tækjubúnaður til hrognatöku verið endurbættur hjá Brimi hf. Akranes sé í landfræðilegri kjörstöðu þegar kemur að hrognavinnslunni enda þá stutt af miðunum inn til hafnar.

Mjög dró úr umsvifum á Akranesi þegar HB Grandi, nú Brim, ákvað að flytja alla vinnslu á bolfiski til Reykjavíkur frá Akranesi 2017. Þar höfðu starfað 270 manns innan samstæðu HB Granda, þar af 93 við botnfiskvinnsluna. Óhjákvæmilega minnkuðu um leið umsvif hafnarinnar og segir Sævar það sérstakt gleðiefni að sjá líf aftur færast yfir höfnina.  Á litlu loðnuvertíðinni í fyrra hófst vinnsla á loðnuhrognum á vegum Brims á Akranesi í byrjun mars og var fyrirtækið með loðnufrystingu jöfnum höndum þar og á Vopnafirði.

Sævar segir að margir í bænum fái vinnu í tengslum við loðnuvertíðina sem skili sér í góðum launum. Bæjarbúar séu stoltir yfir því að höfnin komist á ný í fulla virkni. Hliðartengd starfsemi verður til við þjónustu við loðnuskipin. Allt skili sér í auknum útsvarstekjum og löndunargjöld skili sér til Faxaflóahafna sem Akraneskaupstaður er hluti af.

„Við njótum þess líka að hér á Akranesi eru fyrirtæki eins og Vignir G. Jónsson sem nú er í eigu Brims og vinnur mjög verðmætar afurðir úr hrognunum. Auðvitað var það áfall þegar það varð loðnubrestur tvö ár í röð en nú erum við farnir að sjá breytingar á því. Vonandi verður yfirstandandi loðnuvertíð jafn stór og veiðiheimildir gefa tilefni til að hún verði.“