Með vaxandi þorskstofni í Barentshafi hefur kvóti íslenskra skipa aukist þar jafnt og þétt. Gera má ráð fyrir að heildarkvóti Íslands aukist um 3 þúsund tonn á næsta ári, eða um 33%. Frá þessu er greint í nýjustu Fiskifréttum.

Norsk-rússneska fiskveiðinefndin hefur samþykkt að auka þorskkvótann í Barentshafi úr um 750 þúsund tonnum upp í eina milljón tonna eins og fram er komið. Samkvæmt Smugusamningnum milli Íslands, Noregs og Rússlands fá íslensk skip vissa hlutdeild í heildarkvótanum.

Í ár máttu íslensk skip veiða um 5.700 tonn af þorski í norsku lögsögunni í Barentshafi og tæp 3.600 tonn í þeirri rússnesku. Ef fram fer sem horfir fá íslensk skip 7.609 tonna kvóta í norsku lögsögunni á næsta ári og 4.756 tonn í þeirri rússnesku en frá því hefur þó ekki verið gengið. Samtals eru þetta 12.365 tonn miðað við slægt. Aukning milli ára yrði um 3 þúsund tonn, eða 33%.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.