Áður en fólk komst upp á lagið með að frysta eða ísa fisk um borð var iðulega notast við brunnbáta til að flytja fisk lifandi á fjarlæga markaði.

Síðastliðið haust kom Oddeyrin EA til Akureyrar, nýr Samherjatogari sem búinn er sex tönkum til að geyma lifandi fisk svo hægt sé að landa honum ferskum að loknum veiðitúr.

Hægt er að stunda hefðbundnar bolfiskveiðar í Oddeyrinni en nýjungin felst í búnaði til að dæla fiski um borð og geyma hann lifandi í sex tönkum skipsins. Í tönkunum er líka hægt að kæla fiskinn ef hann er ekki fluttur lifandi til lands.

Að sögn Hjörvars Kristjánssonar verkefnastjóra tafði bræla fyrir veiðum í vetur en Oddeyrin fór nokkra túra í október og nóvember, en stefnt er á frekari tilraunir.

Í tímariti Fiskifrétta síðastliðið haust var haft eftir Hjörvari að þessi aðferðafræði hafi verið til skoðunar hjá Samherja í mörg ár og fyrirtækið haft augun opin fyrir skipi sem hentaði í verkefnið. Um tilraunverkefni sé að ræða en aðferðafræðin við veiðar og geymslu á fiskinum eigi eftir að sanna sig.

Þekkt frá fyrri tíð

Þetta er þó engan veginn ný aðferð við veiðar. Frásagnir eru til frá fyrri öldum um að útbúnir hafi verið brunnar í skip til flutnings á lifandi fiski, enda var enginn hægðarleikur þá að koma ferskum fiski langa leið á markað áður en fólk komst upp á lagið með að ísa fisk um borð eða frysta.

„Flutningur tók yfirleitt langan tíma og aðstaða til að halda fiski kældum takmörkuð,“ segir í fjölriti Hafrannsóknastofnunar frá árinu 2009, sem þeir Valdimar Ingi Gunnarsson, Björn Björnsson og Einar Hreinsson tóku saman.

Oddeyrin, kom til heimahafnar á Akureyri síðastliðið sumar, búin sex tönkum til geymslu á lifandi fiski. Mynd/Hafþór Hreiðarsson
Oddeyrin, kom til heimahafnar á Akureyri síðastliðið sumar, búin sex tönkum til geymslu á lifandi fiski. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

„Því var snemma farið út í að flytja fiskinn lifandi, og þegar á sextándu öld voru skip í Hollandi útbúin með brunn í lestinni, en göt voru gerð á síðuna til að skapa hringrás fyrir sjóinn. Á sautjándu öld var byrjað að smíða brunna í bresk skip og flutningur á lifandi fiski í brunnum var einnig stundaður á austurströnd Bandaríkjanna“, segir í fjölritinu. „Á Bretlands-eyjum var föngun á þorski stunduð fram á byrjun tuttugustu aldar og voru vel stæðir neytendur tilbúnir að greiða hærra verð fyrir lifandi þorsk vegna meiri gæða en á fiski sem landað var á hefðbundinn hátt“.

Bara golþorskar

Í sama riti er veiðunum lýst nánar:

„Það voru bara golþorskar, yfir 15 kíló, sem fóru í brunninn. Þessir fiskar urðu að vera gallalausir og nánast ósærðir í kjaftinum eftir krókana. Þegar fiskarnir voru dregnir úr djúpinu myndaðist loft í maga sem var reynt að fjarlægja með því að strjúka fiskinum varlega. Einnig var hægt að stinga holri nál bak við brjóstuggann og inn í sundmagann til að hleypa lofti úr sundmaganum. Síðan var fiskinum sleppt varfærnislega niður í brunninn með sporðinn á undan.“

Ýmsar heimildir eru til um veiðar erlendra skipa hér við land sem fluttu lifandi fisk aftur til síns heimalands. Þannig segir í Tíðindum um stjórnarmálefni Íslands, öðru bindi, frá 1870:

„Árið, sem leið, fóru hér um bil 6 skip frá Hjaltlandi og af ensku duggunum fleiri, en vant var, til Íslands seinustu ferð sína á vertíðinni. Nokkrar af ensku duggunum fóru heim aptur beina leið til enskra hafna með lifandi fisk.“

Gömul bandarísk teikning af þversniði lúðuveiðibáts með brunn til að halda fisknum lifandi. MYND/Wikipedia
Gömul bandarísk teikning af þversniði lúðuveiðibáts með brunn til að halda fisknum lifandi. MYND/Wikipedia

Í Andvara árið 1896 segir af Norðmönnum sem hafi í nokkur ár stundað þorskveiðar við vesturströnd Íslands:

„Nú eru hjer árlega 6 skip frá Skudenæs, 90 smál. að stærð og hafa »brunn«. Á leiðinni til Íslands koma þau við á Færeyjum, og fá þar færeyska háseta. Hingað koma þau í miðjum maí og fara hjeðan í september og taka þá með sjer lifandi fisk í »brunninum« og selja hann í Englandi, því þeir segja að ferðin svari annars ekki kostnaði. Annars leggja þeir aflann upp á Ísafirði.“

Bjarni skoðar skip

Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur segir frá Fiskisýningunni í Bergen árið 1898, í grein sem birt var eftir hann í Íslandi í desember sama ár. Þar skoðaði hann mikið safn af veiðarfærum og báta- og þilskipalíkunum úr fiskveiðasafninu í Stokkhólmi, auk annars sem fyrir augu hans bar þar.

„Af opnum bátum leizt mér bezt á bát frá Helsingjalandi, er hafði skjólþil úr segldúk, til að verjast ágjöfum og á báta frá Norbotten, Bohuslän og Skáne Þilskipin frá Råå, og byrðingar frá Eyrarsundi með nýjasta lagi og brunni, til að geyma í lifandi fisk (kvasse), voru mjög falleg og vönduð skip að sjá“, skrifar Bjarni.

Í seinni tíð hafa brunnbátar mest verið notaðir í tengslum við fiskeldi, hér á landi sem annars staðar.

Ronja Storm er stærsti brunnbátur heims, notaður í fiskeldi á áströlsku eyjunni Tasmaníu. Brunnbátar hafa átt endurkomu eftir að fiskeldi óx ásmegin. Aðsend mynd
Ronja Storm er stærsti brunnbátur heims, notaður í fiskeldi á áströlsku eyjunni Tasmaníu. Brunnbátar hafa átt endurkomu eftir að fiskeldi óx ásmegin. Aðsend mynd

Stærsti brunnbátur í heimi mun vera Ronja Storm, sem smíðaður var árið 2019 fyrir norska fyrirtækið Sölvtrans. Skipið er 116 metra langt og 23 metra breytt, búið 7.450 rúmmetra fisktönkum. Ronja Storm hefur verið leigt til tíu ára til fiskeldisfyrirtækisins Huon á áströlsku eyjunni Tasmaníu.