ff

Myndband sem Norska ríkissjónvarpið hefur undir höndum sýnir þegar sjómenn á norskum togara skera á trollið og losa hluta aflans í Barentshafið. „Algerlega óásættanlegt og ósiðlegt athæfi,“ segir Lisbeth Berg-Hansen sjávarútvegsráðherra Noregs í samtali við Norska ríkissjónvarpið.

Atvikið átti sér stað í maí í fyrra á togara frá Finnmörk. Nafn á togaranum er ekki gefið upp. Eftirlitsmaður frá norsku fiskistofunni var um borð og náði myndunum. Málið hefur verið í rannsókn síðan. Fiskistofa telur brottkastið ólöglegt og er að undirbúa dómsmál á hendur togaranum.

Á myndbandinu sést að trollið fyllist á aðeins tíu mínútum. Um 70-80 tonn eru komin hálfa leið upp á dekkið en hluti er enn í sjónum og rennunni. Togarinn hefur ekki getu til að taka svona mikinn fisk um borð í einu. Þess vegna var skorið á pokann og bæði lifandi sem dauður og deyjandi fiskur fór í sjóinn aftur.

Í annarri frétt í Norska ríkissjónvarpinu er haft eftir sjómönnum að skorið hafi verið á trollið og hleypt úr því fimm tonnum af þorski af ótta við að það myndi sprynga.

Audun Maråk, framkvæmdastjóri samtaka norskra útvegsmanna, ber í bætifláka fyrir skipstjórann. Þetta sé eitthvað sem gerist af og til og í þessu tilviki sé ljóst að sjómenn hafi verið að bjarga því sem bjargað varð. Hann telur að 80 til 90% af þorskinum lifi af þegar skorið sé á trollið með þessum hætti.

Lisbeth Berg-Hansen segir hins vegar að það sé engin afsökun fyrir brottkasti að trollpokinn hafi verið of fullur. Sjá frétt Norska ríkissjónvarpsins af málinu og brot úr myndbandinu sem sýnir brottkastið http://www.nrk.no/nyheter/distrikt/troms_og_finnmark/1.8290354