Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er um það bil að ljúka ellefu daga leiðangri við fjölgeisladýptarmælingar á Látragrunni vestur af Breiðafirði. Markmið mælinganna er að fá upplýsingar um botnlögun á hrygningarstöðvum steinbíts.
Jafnframt er markmiðið að fá nákvæma lögun á hryggnum sem er á utanverðu grunninu sem og umhverfi hans vegna athugana á búsvæðum kórala ( sjá kort á vef Hafró ).
Umræddur hryggur, sem er betur þekktur sem “brjálaði hryggurinn” meðal sjómanna, er jökulgarður sem myndaðist á ísöld þegar sjávarstaða var lægri og jöklar náðu langt út á landgrunnið. Hafrannsóknastofnunin hefur áður gert dýptarmælingar yfir hrygginn (Þórdís Ólafsdóttir 1975) en á sínum tíma var það Sæmundur Auðunsson fyrstur skipstjóra á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni, sem vakti athygli manna á fyrirbærinu. Hann taldi hrygginn vera jökulgarð. Fjölgeislamælingarnar sýna hins vegar hvernig hryggurinn og umhverfi hans lítur út í smáatriðum.
Í heild sýna niðurstöður að ísaldarjökullinn hefur átt mikinn þátt í að móta landslag á Látragrunninu. Þannig má greina fleiri hörfunarstig jökulsins á grunninu austan við hrygginn þar sem nú eru hrygningarstöðvar steinbíts og einnig koma fram önnur fyrirbæri sem gefa til kynna mögulegan kóralvöxt.
Gögnin verða notuð síðar á árinu í öðrum rannsóknarleiðöngrum stofnunarinnar þar sem kanna á frekar hrygningarstöðvar steinbítsins og möguleg kóralsvæði.
Leiðangurstjóri er Guðrún Helgadóttir og skipstjóri Guðmundur Bjarnason.