Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar var það frystitogarinn Brimnes RE sem Gæslan vísaði til hafnar í fyrrinótt fyrir meintar ólöglegar síldveiðar í lögsögu Grænlands.
Þá fóru varðskipsmenn af dönsku varðskipi um borð í Guðmund í Nesi RE í grænlenskri lögsögu, einnig vegna gruns um að skipið hefði stundað ólöglegar síldveiðar, en bæði skipin hafa hins vegar leyfi til makrílveiða á svæðinu.
Þegar málið kom til rannsóknar var Brimnesið á leið til hafnar á Íslandi. Áhöfn varðskipsins Þórs fór til eftirlits um borð í skipið í fyrrinótt og var skipstjóra í framhaldinu tilkynnt að hann hefði verið staðinn að meintum ólöglegum veiðum. Málið er til meðferðar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Brim hf. gerir bæði skipin út. Ekki náðist í forstjóra fyrirtækisins við vinnslu þessar fréttar.
UPPFÆRT : Brim hf. segir það rangt að danskir varðskipsmenn hafi farið um borð í Guðmund í Nesi RE. Ennfremur sé rangt að grænlensk stjórnvöld hafi grunað skipin um ólöglegar síldveiðar enda hafi þau síldveiðileyfi í grænlenskri lögsögu. Brim hf. kveðst harma þennan ranga fréttaflutning Landhelgisgæslu Íslands.