Tveimur áhöfnum Vigra RE 71 hefur verið sagt upp störfum og er frystitogarinn nú væntanlega í sinni næst síðustu veiðiferð fyrir Brim hf.
Ekki hefur náðst í forsvarsmenn Brims vegna þessara uppsagna en samkvæmt heimildum Fiskifrétta má rekja þær til samdráttar í aflaheimildum. Er það meðal annars vegna þorskkvóta í Barentshafi sem ekki hefur verið hægt að sækja vegna aðgerða í sambandi við innrás Rússa í Úkraínu, samdráttar í djúpkarfa og takmarkaðs afla í ufsa.
„Úthlutun í djúpkarfa var engin í upphafi ársins og einnig hömluðu stjórnvöld Brimi að veiða stóran hluta síns þorskkvóta í Barentshafi á árinu,“ segir í nýlegri frétt Brims þar sem farið er yfir ársuppgjör félagsins.
Ganga fyrir um pláss í skip Brims
Vigri verður fyrir valinu vegna aldurs síns og ástands. Skipið er smíðað 1992 og frystikerfi þess munu þarfnast kostnaðarsamrar endurnýjunar.
Samkvæmt heimildum Fiskifrétta ganga þeir 52 menn sem eru í tveimur áhöfnum Vigra fyrir um pláss á önnur skip Brims.
Vigri er nú á ufsaveiðum á Eldeyjarbanka. Áætlað mun vera að þegar þeim túr lýkur fari áhöfnin sem nú er í landi einn túr. Ekkert hefur verið staðfest um framhaldið eftir það.