Eigendur Ögurvíkur hf. og Brim hf. hafa gert samkomulag um að Brim hf. kaupi allt hlutafé í Ögurvík hf.
Ögurvík hf. á og gerir frystitogarann Vigra RE-71 út frá Reykjavík. Þá hefur Ögurvík hf., rekið söluskrifstofu fyrir sjávarafurðir og vélsmiðju sem m.a. framleiðir toghlera.
Á Vigra RE-71 eru tvær áhafnir, sem skipta með sér veiðiferðum, alls 54 manns. Aflaheimildir skipsins á þessu fiskveiðiári eru um 10.000 tonn upp úr sjó.
„Það er okkur eigendum Ögurvíkur hf. mikið fagnaðarefni að nú þegar við hyggjumst róa á önnur mið þá skuli öflug útgerð í Reykjavík taka við Vigra. Það er okkur mikils virði að sem minnst röskun verði á högum sjómannanna en margir þeirra hafa unnið hjá fyrirtækinu í áratugi“ segir Hjörtur Gíslason framkvæmdastjóri Ögurvíkur hf. í fréttatilkynningu um söluna.
Fjórði frystitogari Brims
Brim hf. á og gerir út þrjá frystitogara frá Reykjavík, Guðmund í Nesi RE-13, Brimnes RE-27 og Kleifaberg RE-70. Aflaheimildir skipanna nema um 24.000 tonnum upp úr sjó. Hjá fyrirtækinu vinna um 150 manns til sjós og lands.
Brim hf. hyggst gera Vigra RE-71 áfram út frá Reykjavík að sögn Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims.
„Kaupin á Ögurvík hf. falla mjög vel að rekstri Brims. Brim gerir út þrjá frystitogara frá Reykjavík og með kaupunum á Vigra styrkist rekstur félagsins. Það hefur sýnt sig að með stærri einingum verða íslensk sjávarútvegsfyrirtæki öflugri. Það á ekki síst við á erlendum mörkuðum þar sem íslenskur sjávarútvegur á í harðri samkeppni um sölu afurðanna. Það má ekki gleymast að þar ræðst afkoma okkar að stórum hluta.“ segir Guðmundur.