Brim hefur gengið frá kaupum á frystitogaranum Ilivileq frá Arctic Prime Fisheries á Grænlandi fyrir 55 milljónir evra, andvirði rúmlega 8,2 milljarða ÍSK. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir að skipið verði gert út á bolfiskveiðar við Ísland
Brim hafði frumkvæði að smíði Ilivileq árið 2020 en seldi það Arctic Prime Fisheries á Grænlandi sama ár. „Nú erum við að kaupa skipið aftur af Arctic Prime og það verður hefðbundinn frystitogari á Íslandsmiðum. Gerður hefur verið kjarasamningur til níu ára og það er mikill kostur að vita hvað er fram undan. Brim var með fimm frystitogara fyrir tíu árum,“ segir Guðmundur.

120 tonn á sólarhring
Afkastagetan í frystingu um borð í Ilivileq er 120 tonn á sólarhring og í skipinu er einnig fiskimjölsverksmiðja frá HPP. Allur afli skipsins verður því fullnýttur til framleiðslu á afurðum. Afkastageta vinnslunnar verður allt að 150 tonn á sólarhring. Skipið var smíðað í Gijon á Spáni og var sjósett 2020. Það er hannað af Rolls Royce í Noregi í samstarfi við Brim. Við hönnun þess var lögð áhersla á orkusparnað. Um borð er aðstaða fyrir skipverja til fyrirmyndar. Skipið er með nýrri kynslóða véla frá Bergen-Diesel með 5.400 kW afli. Ilivileq er glæsileg viðbót í togaraflotann á Íslandi. Guðmundur sagði, þegar uppgjör Brims á fyrsta ársfjórðungi 2024 var kynnt fyrr í mánuðinum, að skipið myndi styrkja frekar bolfiskveiðar félagsins. Hann sagði afurðaverð hafa hækkað á sjófrystum afurðum en staðið í stað á landfrystum afurðum.