Brim hf. hefur keypt frystitogara frá Grænlandi fyrir jafnvirði 2,9 milljarða króna. Félagið hyggst síðan selja frystitogarann Örfirisey RE-4.
Um er að ræða togarann Tuukkaq, sem áður hét Tuugaalik. Seljandinn er Tuukkaq Trawl AS sem er hlutdeildarfélag Royal Greenland AS.
„Þetta er öflugt heilfrystiskip og við hyggjumst nota það í þær tegundir sem eru mest færðar til heilfrystingar,“ segir Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brim. Sé þar helst um að ræða grálúðu, gulllax og karfa.

Tuukkaq var smíðaður árið 2001 í Noregi og er 66,4 metra langur og 14,6 metra breiður. Áætlað er að skipið fari til veiða í september undir nafninu Þerney RE-3. Í framhaldinu verður frystitogarinn Örfirisey RE-4 seldur.
Andstætt Tuukkaq, sem senn verður Þerney, er Örfirissey flakafrystiskip. Að sögn Ægis eru þar um 25-26 menn í áhöfn á móti átján til tuttugu í Tuukkaq.