Eins og komið hefur fram hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að beita sjávarútvegsfyrirtækið Brim dagsektum þar sem því hefur ekki borist, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, mikilvægar upplýsingar og gögn í tengslum við athugun á stjórnunar- og eignatengslum fyrirtækja í sjávarútvegi. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir í frétt á RÚV að félagið afhendi ekki Samkeppniseftirlitinu gögn fyrr en áfrýjunarnefnd hafi tekið málið fyrir.

Brim kærði úrskurð Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Brim er eina fyrirtækið sem hefur enn ekki veitt upplýsingar í tengslum við athugun Samkeppniseftirlitsins. Guðmundur hefur gagnrýnt mjög framgöngu matvælaráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins í þessu máli. Hann segir matvælaráðherra í pólitískri stefnumótun með málefni sjávarútvegsins og það sé ekki ásættanlegt að hann geri samning um rannsókn við stjórnvald sem búi yfir miklu rannsóknar- og sektarvaldi.

„Þar er matvælaráðherra að greiða Samkeppniseftirlitinu, sem er með rannsóknaheimildir, peningagreiðslukr til að vinna fyrir sig og getur svo stýrt greiðslum til eftirlitsins, eftir því hvort þau voru ánægð með vinnu eftirlitsins eða ekki. Þetta finnst okkur óeðlileg vinnubrögð,“ segir Guðmundur.