Umtalsverðar tækniuppfærslur hafa verið gerðar á Guðmundi í Nesi RE, frystitogara Útgerðarfélags Reykjavíkur, að undanförnu. Settur var upp búnaður frá fyrirtækinu Maritech, svonefnt Auga, og innleitt rekjanleikakerfi afurða. Stærsta breytingin er þó sú að hægt verður að keyra skipið jafnt á olíu sem metanóli.

ÚR fékk styrk úr Orkusjóði fyrir einu ári sem nam 100 milljónum króna og var stærsti styrkurinn sem þá var veittur. Honum var ætlað að standa straum af kostnaði við breytingar á vélum Guðmundar í Nesi svo þær geti brennt metanóli. Skipið fór í slipp síðastliðið haust og var þá stýrikerfum vélarinnar breytt og það undirbúið fyrir það að nýta metanól í stað dísilolíu. Fyrsta fasa í því verkefni er nú lokið.

Engin framleiðsla á metanóli

„Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna er að það er ekkert metanól framleitt á Íslandi en það eru nokkur verkefni á sviði metanólframleiðslu að fara af stað. Ég myndi áætla að eftir 3-4 ár verði nægt framboð af metanóli til þess að knýja skipið,“ segir Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur.

Guðmundur í Nesi er 66 metra langur skuttogari, smíðaður í Noregi árið 2000. Útgerðarfélag Reykjavíkur keypti skipið 2004 og gerði út til 2018. Það var svo selt til Arctic Prime Fisheries í Grænlandi í lok árs 2018 og bar þá nafnið Ilivileq. Útgerðarfélag Reykjavíkur festi á ný kaup á skipinu árið 2020 og fór það þá í alls herjar klössun og svo aftur núna síðastliðið haust. Vélar skipsins munu geta gengið bæði fyrir dísilolíu og metanóli.

Slagur um CO2?

„Ástæðan fyrir því að við fórum þessa leið er að draga úr kolefnisfótsporinu en það er mjög takmarkað framboð af grænu metanóli í heiminum í dag. Þess vegna kemur ekki til greina að flytja inn metanól heldur bíðum við þar til náð verður nægilegu framboði innanlands. Á Íslandi munum við geta framleitt grænt metanól, sem tryggir jafnframt orkusjálfstæði þjóðarinnar“

Metanól er geymsluform á vetni sem framleitt er með rafgreiningu vatns sem skilur að vetni og súrefni úr vatnssameindunum. Með blöndun vetnis og koltvísýrings verður til metanól. Til þess að rafgreina vatn þarf mikla raforku sem liggur ekki á lausu frekar en koltvísýringur þótt gnægð sé af honum í andrúmsloftinu.

Runólfur segir að það þurfi um bil tvöfalt meira af metanóli en dísilolíu til að knýja vélar skipsins. Miðað við verðlag nú yrði kostnaðarsamara að keyra skipið á metanóli og myndi það leiða til 20% hækkunar á kostnaði. En spár ganga út á að verð á metanóli lækki með aukinni framleiðslu og verði orðið svipað og á dísilolíu eftir 3-4 ár.

„Núna vantar meiri raforku og CO2 til þess að framleiða metanól innanlands. Fanga þarf CO2 við jarðvarmavirkjanir og fara út í frekari virkjanir til þess að framleiðsla á grænu, umhverfisvænu metanóli geti hafist,“ segir Runólfur.