Hildur Inga Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís, flutti erindi um þau mörgu tækifæri sem eru til vinnslu á hliðarstraumum í uppsjávarfiskvinnslu með breyttum aðferðum við kælingu afla og betri meðhöndlunar á afla.
Hildur rifjaði upp að helstu nytjategundir uppsjávarfisks á Íslandi eru makríll, síld, loðna og kolmunni. Vinnslu á þessum tegundum svipar saman, þ.e.a.s. þær eru flakaðar, unnar í hausaðan og slógdreginn fisk eða unnar heilar í mjöl og lýsi. Þá fer hluti loðnunnar í hrognavinnslu.
Hliðarstraumar helmingur af þyngd
Hildur Inga segir að við þessa vinnslu verði til svokallaðir hliðarstraumar, þar á meðal hausar, hryggir og slóg. Hliðarstraumarnir séu að minnsta kosti helmingur af þyngd fisksins.
„Það er mjög mikilvægt að nýta þennan hluta uppsjávarfisksins rétt eins og þegar rætt er um aðrar lífauðlindir. Við teljum þess vegna að stærstu tækifærin í dag í tengslum við uppsjávarfiskvinnslu liggi í breyttu hugarfari gagnvart hliðarstraumum,“ segir Hildur Inga.
Hún segir að til þess að nýta þessi tækifæri þurfi að endurhugsa ferlana sem unnið hafi verið samkvæmt undanfarna áratugi. Endurhugsa þurfi hvernig þessir hliðarstraumar eru meðhöndlaðir með það að markmiði að hægt sé að auka nýtinguna á lífauðlindinni.
„Nú er aflinn kældur um borð í skipunum sem gerir okkur kleift að nýta betur auðlindina betur, flaka meira og um leið verða til meiri hliðarstraumar. Hliðarstraumar sem áður voru jafnvel sendir úr landi þegar fiskurinn var frystur heill.“
Hún bendir á að í dag fari hliðarstraumarnir mest í vinnslu á fiskimjöli eða fóðurlýsi sem notað er í fiskeldi. Með betri kælingu aflans opnist tækifæri til enn frekari nýtingar á hliðarstraumum, til að mynd lýsisframleiðslu til manneldis eða próteinvinnslu til manneldis eða gæludýrafóður. Í hvítfiskvinnslu er jafnframt tækifæri til vinnslu á öðrum hliðarstraumum og framleiða kollagen og aðrar slíkar vörur.
Mildari vinnsla
Hildur segir önnur tækifæri í nýtingu hliðarstrauma í uppsjávarfiskvinnslu, sem hafi ekki verið gaumgæfð sérstaklega sé til dæmis vinnsla á dýrasvifi, þ.e. rauðátu og ljósátu, hvort sem þessar tegundir komi með öðrum afla við veiðar eða í meltingarvegi fisksins. Einnig megi líta til beinna veiða á dýrasvifi eins og gert sé í löndum í kringum Ísland og jafnvel innanlands. Dýrasvif innihaldi lífvirk efni sem séu mikilvæg í matvælaiðnaði.
„Við núverandi vinnslu fer fram mikil hitameðferð sem getur haft neikvæð áhrif á loka afurðina. Hér er ég aðallega að horfa til fiskmjölsvinnslu. Til þess að viðhalda gæðunum á þessum vörum er mjög mikilvægt að innleiða mildari vinnslu. Það væri til dæmis hægt að styðjast við lægra hitastig í vinnslu, einhvers konar ensímmeðhöndlun eða kaldskiljunaraðferðir. Með þessum aðferðum væri hægt að komast hærra í fæðukeðjunni með vöruna og nýta þannig betur lífauðlindina sem við drögum upp úr hafinu,“ segir Hildur.