Nú liggja fyrir niðurstöður viðamikils rannsóknarverkefnis Hafrannsóknastofnunarinnar á vistkerfi Íslandshafs, þ.e. hafinu milli Íslands, Austur Grænlands og Jan Mayen, sem hófst árið 2006 með umfangsmikilli gagnasöfnun og stóð yfir til ársins 2008.

Rannsóknirnar staðfesta fyrri kenningar um að þær breytingar sem orðið hafa í útbreiðslu loðnu í Íslandshafi frá lokum síðustu aldar eigi rætur að rekja til loftslagsbreytinga og þar af leiðandi breytinga á ástandi sjávar, þ.e. hlýnunar í efri- og millilögum Íslandshafs. Þessar breytingar eru þó ekki útskýrðar að fullu.

Fyrirliggjandi gögn gefa til kynna að hlýnun hafi orðið á síðustu árum í Íslandshafi. Með hliðsjón af því, er ályktað að sú mikla breyting sem orðið hefur í útbreiðslu loðnu sé afleiðing hlýnunar í Íslandshafi, sem hafi leitt til þess að útbreiðsla stofnsins færðist yfir til vestur- og suðvesturhluta Íslandshafs, þ.e. til miða við Austur Grænland, en stofninn var áður mun austar í hafinu.

Þá benda niðurstöður rannsóknanna ennfremur til þess að framlag loðnuhrygningar norðan lands til nýliðunar stofnsins geti verið mun meira en hingað til hefur verið talið, að minnsta kosti í sumum árum.

Sjá nánar um vistfræðirannsóknirnar á vef Hafró.