Atvinnuveganefnd hefur samið frumvarp, sem birt var á vef Alþingis í dag , um breytingar á fyrirkomulagi strandveiða nú í sumar. Meginbreytingin er sú að strandveiðibátum verði heimilt að veiða tólf daga í mánuði, þá fjóra sumarmánuði sem veiðarnar standa yfir.
Strandveiðar hafa til þessa verið takmarkaðar þannig að óheimilt sé að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga.
Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að Fiskistofu verði heimilt að stöðva strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli þeirra fari umfram það magn sem ráðstafað hefur verið samkvæmt reglugerð.
Þá verði hverju strandveiðiskipi heimilt að veiða ufsa sem VS-afla og telst sá afli ekki til hámarksafla.
Þessar breytingar eiga aðeins að gilda nú í sumar.
Landsamband smábátaeigenda segir á vef sínum þarna um mikla breytingu að ræða frá fyrra fyrirkomulagi . LS segir einnig að verði reynslan af þessu breytta fyrirkomulagi góð megi búast við því að um varanlega breytingu verði að ræða.
Dregið úr áhættu
Í greinargerð með frumvarpinu segir að því sé ætlað „að bæta umhverfi strandveiða og hverfa frá innbyggðum þætti þess sem skapar aukna áhættu til veiða. Horfið verði frá því að loka svæðum í hverjum mánuði þegar ætluðu veiðimagni er náð. Uppsafnaðri spennu eins og myndast í hverjum mánuði verði eytt.“
Þess í stað verði heimilt að stunda veiðar í tólf daga í hverjum mánuði, en áfram verði þó óheimilt að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga ásamt tilteknum „rauðum“ dögum eins og nú gildir.
Þá segir að frumvarpinu sé ætlað að auka öryggi sjómanna á strandveiðibátum: „Sá ágalli hefur verið á gildandi fyrirkomulagi að veiðarnar hafa verið það sem kallað er „ólympískar“ sem birtist í því að sjómenn hafa keppst um að ná þeim afla sem heimilt er á sem skemmstum tíma og áður en aflaheimildin yrði upp urin. Þetta hefur leitt til þess að stundum hafa menn róið á minni bátum þótt ekki viðraði til þess og fylgir því að sjálfsögðu aukin slysahætta. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til ætti að draga mjög úr hvata til „ólympískrar“ sóknar og þar með slysahættu.“
Annað frumvarp frá Miðflokknum
Þá hafa þingmenn Miðflokksins
einnig lagt fram frumvarp
um breytingar á fyrirkomulagi strandveiða. Þeirra frumvarp snýst um að strandveiðisjómenn fái heimild til að „gera hlé á veiðunum eða hverfa frá þeim til sérveiða sem eru leyfisskyldar“, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.
Í greinargerðinni er vísað til þess að óánægja hafi ríkt meðal strandveiðisjómanna „um að vera óheimilt að nýta annað sérveiðileyfi en leyfi til strandveiða frá upphafi þeirra ár hvert. Aðilar sem stundað hafa grásleppuveiðar í innanverðum Breiðafirði hafa af þessum sökum ekki getað stundað strandveiðar nema að takmörkuðu leyti þar sem óheimilt er að hefja grásleppuveiðar fyrr en 20. maí ár hvert. Útgerðirnar hafa af þessum sökum misst af fyrsta mánuði strandveiða. Þá hafa þeir sem stunda makrílveiðar ekki getað hafið þær veiðar fyrr en 1. september, eða eftir að strandveiðitímabilinu lýkur 31. ágúst.“
Miðflokkurinn segir að með breytingunni sé komið til móts við útgerðir þessara báta án þess að það hafi áhrif á þann heildarafla sem úthlutað er til strandveiða.