Stofnvísitala hrygningarþorsks við Ísland er um 6% lægri en síðastliðin þrjú ár, en hún hefur verið há frá árinu 2011 eftir að hafa verið í lágmarki árin 2002‐2006, er ein megin niðurstaða netaralls ársins. Vægi hrygningarsvæðanna í Faxaflóa og Breiðafirði hefur aukist.
Netabátarnir Magnús SH, Saxhamar SH, Friðrik Sigurðsson ÁR, Sigurður Ólafsson SF og Geir ÞH tóku þátt í verkefninu að þessu sinni. Niðurstöður netaralls gefa mikilvægar upplýsingar um hrygningarstofn þorsks, eru mælikvarði á þróun á stærð þorskstofnsins og nýtast við mat á líffræðilegu ástandi hans og útbreiðslu, segir þar. Auk þess hafa gögn úr netaralli nýst við hinar ýmsu rannsóknir og leiðangrar verið notaðir til merkinga og söfnunar erfðasýna vegna rannsókna á stofngerð þorsks og ufsa. Netarall veitir einnig mikilvægar upplýsingar um meðafla sjófugla, sjávarspendýra og brjóskfiska við netaveiðar. Sýni sem fengist hafa jafnframt verið notuð til rannsókna á líffræði þessara tegunda.
Vægi svæða eykst
Í niðurstöðunum segir að vægi hrygningarsvæðanna í Faxaflóa og Breiðafirði hefur aukist, en hækkun stofnvísitölu þorsksins má að stórum hluta rekja til þessara svæða.
„Þessi breyting hefur verið áberandi eftir að hrygningarstofninn fór að stækka fyrir um áratug síðan. Undanfarin ár hefur einnig orðið aukning á hrygningu þorsks fyrir suðaustan og norðan land. Kanturinn austur af Eyjum er ólíkur öðrum svæðum og hefur stofnvísitalan þar verið í lágmarki frá árinu 2010,“ segir í niðurstöðunum.
Meðal annarra markverðra niðurstaðna er að verulegar breytingar mælast á vaxtarhraða þorsks sem er mjög ólíkur á milli svæða.
Kanturinn sker sig úr
Stofnvísitala hrygningarþorsks lækkar á flestum svæðum, en er enn há nema í Kantinum fyrir austan Eyjar sem sker sig áfram úr og lítið fékkst af þorski þar. Í Fjörunni var stofnvísitalan óvenju lág í fyrra og hækkar nú talsvert, en er lægri en árin þar á undan. Ágætt samræmi er á þróun stofnvísitalna úr mars- og haustralli og stærðar hrygningarstofns samkvæmt stofnmati, segir í skýrslunni.
Lengdardreifing þorsks breytist yfirleitt lítið frá ári til árs, en mun minna fékkst af 70 til 90 sentímetra þorski í ár en fyrra. Undanfarinn áratug hefur magn stærri fisks verið yfir meðaltali áranna 1996‐2020. Það er í samræmi við hærri aldur hrygningarþorsks samkvæmt stofnmati.
Meðalþyngd þorsks eftir aldri, samantekið fyrir öll svæði, hefur haldist nokkuð svipuð á rannsóknatímanum, en mestu sveiflurnar eru hjá elsta fiskinum. Meðalþyngd eftir aldri er þó ólík eftir svæðum og hefur þróast með ólíkum hætti. Þorskar í Kantinum og fyrir norðan land eru léttari en jafngamlir þorskar á öðrum svæðum.