Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra ætlar að breyta lögum um sérstakt veiðigjald strax. Lögunum verður breytt til bráðabirgða í eitt ár. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.
Mjög skiptar skoðanir hafa verið um sérstaka veiðigjaldið sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði á útgerðarfyrirtæki í landinu. Útgerðirnar eru nú rukkaðar um gjaldið samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem rennur út 1. september, en þá áttu lögin að taka gildi. Frá og með þeim tíma átti að að byggja gjaldtökuna á útreikningum veiðigjaldsnefndar. Sú innheimta er hins vegar í uppnámi því nefndin hefur ekki fengið þau gögn sem hún þarfnast við útreikningana, þar á meðal upplýsingar úr skattframtölum fyrirtækja.
Ný ríkisstjórn hefur lýst því yfir að lögunum verði breytt strax á sumarþinginu sem hófst í gær. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, kynnti minnisblað um málið á ríkisstjórnarfundi í morgun, en hann stefnir að því að leggja nýtt frumvarp fram í næstu viku. Hann vildi því ekki segja í smáatriðum hvaða breytingar yrðu gerðar á sérstaka veiðigjaldinu þegar fréttastofa RÚV náði tali af honum fyrir fundinn í morgun.
„Eins og fram hefur komið þá er núverandi löggjöf þannig að það er ekki hægt að útfæra hana og við munum því hverfa frá þeim lögum eins og við bentum á á þeim tíma. Þannig að útfærslan verður einhvers konar bráðabirgðaútgáfa til eins árs á meðan við erum að vinna að nýju kerfi varðandi fiskveiðigjaldið,“ segir Sigurður Ingi.
- Það verða því ekki gerðar endanlegar breytingar á veiðigjaldinu núna?
„Nei í raun og veru ekki, vegna þess að við höfum auðvitað ekki haft tíma til þess að útfæra það. Og í samræmi við stjórnarsáttmálann munum við byggja það á samspilinu við fiskveiðikerfið.“ Ráðherrann leggur þó áherslu á að grípa strax til aðgerða. „Það þarf að gera það vegna þess að það er bráðabirgðaákvæði sem rennur út núna og lögin áttu að taka gildi 1. september. En það geta þau ekki vegna þess að þau eru ófær.“