Fiskar, eins og einstaklingar innan annarra dýrategunda, bregðast misjafnlega við nýjum og breyttum aðstæðum. Vísindamenn kanna nú hvort og hve mikil áhrif fiskveiðar hafa á eðliseiginleika nytjastofna, svo sem þorsks. Þetta rannsóknaverkefni, sem styrkt er af ESB, nefnist BE-FISH. Sjá HÉR .
Talið er líklegt að djörfustu fiskarnir óttist ekki veiðarfæri fiskiskipa og séu því auðveld bráð. Þeir fiskar sem eru hræddir og varkárir forðast veiðarfærin og lifa frekar af. Þeirra bíður svo það verkefni að viðhalda fiskistofninum. Þá vaknar sú spurning hvort næstu kynslóðir fiska samanstandi aðallega af „hræðslupúkum“ sem erfitt er að veiða?
Það er löngu vitað að einstaka fiskar í hverjum fiskistofni hafa mismunandi eiginleika eða persónuleika. Um er að ræða fimm meginflokka eftir hlédrægni/áræðni, forvitni, virkni, félagslyndi og árásarhneigð. Í fjölda rannsókna hefur verið sýnt fram á að þessir eiginleikar eru arfgengir. Rannsókn BE-FISH miðar einmitt að því að athuga hvaða áhrif fiskveiðar hafa á þróun lífs í sjónum. Hvort þær stuðli að einskonar náttúruvali sem fjarlægi ákveðna eiginleika sem einkennt hafa fiskistofna í árþúsundir og breyti þannig þróunarsögunni.