Breskar fjölskyldur velja nú þorsk í síauknum mæli í helgarmatinn um leið og verð á hefðbundnum fish and chips réttum hefur rokið upp, að því er fram kemur á vef The Guardian.

Neysla á þorski í Bretlandi hefur minnkað vegna hækkandi verðs. Neytendur líta ekki lengur á þorskinn sem hversdagsmat samkvæmt nýlegum markaðsrannsóknum. Fram kemur að neyslan hafi minnkað um 1,4% á tímabilinu janúar til ágúst 2009 miðað við sama tíma í fyrra þrátt fyrir að salan hafi aukist um 4% í verðmætum og numið 94,4 milljónum punda, eða um 20 milljörðum ísl. kr., á tímabilinu. Verðhækkanir stafa af minnkandi framboði.

Þótt þorskneyslan sé að færast á helgarnar halda föstudagar enn sínum fyrra sessi sem mestu þorskneysludagar Breta. Um 27% þorskneyslunnar fer fram á föstudögum.

Á sama tíma og þorskurinn fær hærri sess á matseðli heimilanna nota fiskframleiðendur í vaxandi mæli aðrar tegundir í tilbúna rétti svo sem ufsa og einnig eldistegundir eins og pangasius.