Þorskur á undir högg að sækja sem aðalhráefni í fish-and-chips rétti í Bretlandi. Sala á honum hefur minnkað um 10% að því er fram kemur á fréttavefnum timesonline.co.uk.
Miklar líkur eru nú á því að hvítfiskur sem fólk kaupir í brauðraspi sé annað hvort alaskaufsi eða pangasius framleiddur í Víetnam.
Sérfræðingar kenna efnahagsástandinu um og segja að veitingastaðir og verslanir almennt séu undir þrýstingi að fá ódýrari tegundir til að leysa þorsk og ýsu af hólmi.
Fram kemur að fyrir fjórum árum hafi pangasius verið óþekktur á Bretlandsmarkaði en salan í fyrra hafi numið 10 milljónum punda eða 1,9 milljarði ísl. króna. Pangasius er ódýr vara, kostar 6,5-7,5 pund kílóið (1.240-1.433 kr. ísl.) en þorskur og ýsa seljast á 11,5-12,5 pund (2.195-2.390 kr. ísl.)