Mikill meirihluti fiskstofna í lögsögu Bretlands er nýttur umfram mögulegan langtímaafrakstur, að því er fram kemur í nýrri opinberri skýrslu um stöðu sjávarútvegs í Bretlandi árið 2007. Þrátt fyrir mikið álag á fiskstofna sýnir skýrslan þó lítilsháttar framfarir varðandi sjáfbærar veiðar. Af 20 helstu botnfisktegundum í breskri lögsögu voru 25% nýttar á sjálfbæran hátt árið 2007 en þetta hlutfall var einungis 10% í byrjun 10. áratugarins.
Árið 2007 veiddu breskir fiskimenn 611 þúsund tonn af sjávarfangi innan og utan landhelgi Bretlands. Aflaverðmætið nam 650 milljónum punda (um 123 milljarðar ISK). Skelfiskur og botnfiskur skiluðu um 40% verðmætanna hvor en uppsjávarfiskur, svo sem makríll og síld og fleiri tegundir, skiluðu um 20% verðmætanna.
Nær 13 þúsund manns unnu við breskan fiskiðnað árið 2007 en fiskvinnslan skapaði yfir 18 þúsund störf árið 2005. Sum þessara starfa eru tilkomin vegna fiskeldis. Um 20% vinnandi manna eru háðir sjávarútvegi í sumum sjávarbyggðum. Makríll er sá fiskur í bresku lögsögunni sem skilar langmestum verðmætum en hann er aðallega veiddur af skoskum skipum. Á Norður-Írlandi og Wales eru skelfisktegundir verðmætastar, svo sem krabbar, humar og skelfiskur. Botnfiskveiðum í Norðursjó, hafinu vestur af Skotlandi og Írska hafinu hefur hnignað en strandveiðin hefur aukist, bæði á botnfiski og skelfiski.
Sjö af 10 veiðigreinum sem skila mestri arðsemi byggja á veiðum í Norðursjó og undan vesturströnd Skotlands. Heildarhagnaður breskrar útgerðar árið 2007 nam um 95 milljónum punda (um 18 milljörðum ISK) fyrir fjármagnskostnað og afskriftir.
Heimild: Seafoodsource.com