SEAFISH, sjávarútvegsráð Bretlands, ráðgerir umfangsmikla markaðsherferð sem miðar að því að auka vitund almennings um gæði makríls sem neysluvöru og heilnæmi hans. Er þetta hugsað sem mótvægisaðgerð við innflutningsbanni Rússa á breskum sjávarafurðum.

Af sjávarafurðum hafa Bretar einkum flutt makríl út til Rússlands og nemur útflutningsverðmætið um 3,3 milljörðum kr. á ári. Þá var útflutningsverðmæti á laxi tæplega 200 milljónir kr. ári. Vonir standa til að aðgerðir sjávarútvegsráðsins vegi upp það tjón sem innflutningsbannið veldur Bretum.

Sjávarútvegsráðið vill draga fram mikilvægi makríls sem ríkulegrar uppsprettu af omega-3 fitusýrum. Herferðin byggist m.a. á samstarfi við næringafræðinga. Bent verður á mikilvægi omega-3 í auglýsingum í prent- og ljósvakamiðlum, ekki síst fyrir vanfærar konur.

Þá er verið að útbúa aðgengilega lista yfir makríluppskriftir, næringargildi, verð og úrval.

Einnig ætla Bretar að hefja markaðssókn inn á markaði í Suðaustur Asíu.